Óperan Rakarinn í Sevilla er eftir ítalska tónskáldið Rossini, byggir á sögu franska leikskáldsins Beaumarchais og fjallar um Spánverja. Í meðförum Óðs verður hún flutt á íslensku, í glænýrri þýðingu hópsins, svo skaft þessa landfræðilega og menningarlega suðupotts lengist enn frekar. Óperan hefur frá frumsýningu 1816 notið fádæma hylli og er eitt ástsælasta verk óperubókmenntanna.
Óður er Listhópur Reykjavíkur 2024, hefur unnið til Grímuverðlauna fyrir starf sitt og verið tilnefndur sem flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Frumraun hópsins leit dagsins ljós í október 2021 í Þjóðleikhúskjallaranum og hefur hópurinn síðan sýnt yfir 40 sýningar af þremur uppfærslum sínum þar; Ástardrykknum, Don Pasquale og Póst-Jóni.
Rakarinn í Sevilla er fyrsta sýning hópsins í Sjálfstæðissalnum. Verkefnið er styrkt af Sviðslistasjóði.