Tríóið Fjarkar og vinir

Ásmundarsalur

14. - 21. desember

Miðaverð frá

4.900 kr.

Tríóið Fjarkar og vinir

Tríóið Fjarkar og vinir bjóða þig velkomin á síðdegistónleika í hjarta borgarinnar. Heimsókn í Ásmundarsal í desember hefur fest sig í sessi sem jólahefð hjá mörgum. Listaverk þekja veggi og alla lausa fleti og jólastemmning ríkir. Í ár munu Tríóið Fjarkar halda tvenna jólatónleika ásamt jólavinum sínum.

14.des kl 17:30

Tríóið Fjarkar ásamt hljómsveit.

Kammerkórinn Cantoque Ensemble

Dúetting Singibjörg

21.des kl 17:30

Tríóið Fjarkar ásamt hljómsveit.

Vigdís Hafliðadóttir og Anna Gréta Sigurðardóttir

Tríóið Fjarkar eru þeir Aron Steinn Ásbjarnarson (söngur, saxófónn), Þorkell Helgi Sigfússon (söngur, gítar) og Örn Ýmir Arason (söngur, kontrabassi). Var tríóið stofnað í skapandi sumarstarfi í Kópavogi fyrir óþarflega mörgum árum. 50’s og 60’s doo-wop lög urðu fókusinn og hefur Tríóið sérhæft sig í þeim stíl síðan þá. Tríóið hefur gefið út eigin jólalög frá árinu 2017. Gestahljóðfæraleikarar eru Sigurður Ingi Einarsson (Trommur, ásláttur), Birkir Blær Ingólfsson (saxófónn), Tómas Guðni Eggertsson (píanó).

Siggi&Ingibjörg eru tónlistarhjón, dýnamískt dúó, malt og appelsín, stef og strengur. Þau hafa starfað saman í tónlist um langt árabil við lifandi tónlistarflutning, tónsmíðar og haldið tónlistarsmiðjur fyrir börn og fullorðna. Bæði hafa þau Sigurður Ingi Einarsson og Ingibjörg Fríða Helgadóttir víðtækan bakgrunn í íslensku tónlistarlífi, þvert á stefnur og stíla.

Cantoque Ensemble

Cantoque Ensemble er 8-12 radda sönghópur sem inniheldur marga af bestu söngvurum landsins, bæði á sviði snemmtónlistar, nútímatónlistar og óperu. Meðlimir hópsins hafa margir hverjir sungið hlutverk á sviði Íslensku óperunnar og víðar, sungið með hljómsveitum víða um heim og hlotið ótvíræðar viðurkenningar fyrir söng sinn, þar með talið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna og margt fleira.  

Framundan eru mörg spennandi verkefni hjá hópnum, þar má nefna samstarfsverkefni með Eistneska fílharmóníukammerkórnum og stjórnanda hans, Tõnu Kaljuste, nýja óratoríu eftir Högna Egilsson og stórt alþjóðlegt verkefni um ferðir Guðríðar Þorbjarnardóttur sem mun spanna árin 2027-2028.

Vigdís Hafliðadóttir er Fyndnasti Háskólaneminn árið 2020. Síðan þá hefur flug hennar síst lækkað og hún hefur komið víða við. Hún er menntuð í heimspeki og pípulagningum, en sagði skilið við bæði heimspeki og pípuspeki til að helga sig listsköpun ýmiss konar. Hún hefur komið fram með uppistandshópnum VHS sem hefur staðið fyrir sýningum í Tjarnarbíó tvö leikár í röð. Hún er meðlimur í spunahópnum Improv Ísland, fréttakona hjá satíru-miðli Hatara Iceland Music News sem vakti alþjóðlega athygli og er söngkonan í hljómsveitinni FLOTT þar sem hún semur einnig textana sem þykja hnyttnir og skemmtilegir. Hún hefur einnig komið að dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi, handritsskrifum, auglýsingagerð og leiklist.

Anna Gréta Sigurðardóttir hefur verið búsett í Svíþjóð síðan 2014 og hefur, þrátt fyrir ungan aldur, orðið einn af eftirsóttustu jazzpíanistunum þar í landi. Hún hefur á síðustu árum sópa’ að sér verðlaunum og tilnefningum. Árið 2019 hlaut hún hin virtu Monica Zetterlund verðlaun, en þau hlýtur einn ungur og efnilegur jazztónlistarmaður í Svíþjóð á ári. Þar að auki var hún tilnefnd til verðlaunanna Jazzkatten af sænska ríkisútvarpinu, og tilnefnd í tveimur flokkum til íslensku tónlistarverðlaunanna 2019. Anna Gréta var valin bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaunum árið 2015 og hlaut viðurkenningu frá góðvinafélagi stærsta jazzklúbbs Svíþjóðar, Fasching í Stokkhólmi árið 2018 en einnig þau verðlaun hlýtur einungis einn ungur tónlistarmaður í Svíþjóð á ári.

Anna Gréta hefur verið virk sem tónskáld og var meðal annars valin til þess að semja verk fyrir stjörnupíanóleikarann Bobo Stenson, einn þekktasta jazztónlistarmann Svía, og Norrbotten big band haustið 2019. Hún hefur unnið með fjölmörgum hljómsveitum og komið fram undir eigin nafni. Meðal þeirra sem hún hefur unnið með eru Peter Asplund, Magnus Lindgren, Edda Magnason, Håkan Broström, Norrbotten Big Band, Max Schultz og Joakim Milder.

Flytjendur

Gjafakort fyrir öll tilefni

Gefðu viðburð að eigin vali

Kaupa gjafakort

Nýir viðburðir og tilboð fyrir þig í hverri viku

Skráðu þig á póstlistann

Skrá mig
Messenger