© 2025 Tix Miðasala
í Heimahúsi í 101 Reykjavík, Nánari Staðsetning Fylgir Miða
•
15. nóvember
Miðaverð frá
2.900 kr.




Waiting for the elves
Waiting for the elves er verk sem var sérstaklega samið fyrir RDF og er síðasti kaflinn í langtímarannsóknum Helle Siljeholm á og með fjöllum, þar sem hún hefur kannað löngu liðna fortíð, nútíð og mögulega framtíð. Í Reykjavík skapar hún verkið í samvinnu við ítalska sýningarstjórann Lisu Gilardino og Mazen Maarouf, palestínskt skáld, þýðanda og blaðamann. Sýningin fer fram á heimili Mazens, sem vekur hughrif um Godot, um absúrdisma, kyrrð, pólitík og anda. Titillinn ýjar bæði að lotningu og íroníu, og ef til vill einhverju fleira - vilja til að trúa, eða til að frelsa sig undan vantrúnni. Trúin er nefnilega - rétt eins og jarðfræði, eins og sviðslistir - marglaga og á stöðugri, hægri hreyfingu.
Waiting for the elves er samvinnuverkefni skáldsins Mazen Maarouf, sýningarstjórans Lisu Gilardino og danshöfundarins og myndlistarkonunnar Helle Siljeholm.
Helle Siljeholm er myndlistarkona og danshöfundur sem býr og starfar í Osló og leggur stund á doktorsnám við Kunsthøgskolen i Oslo. Listsköpun hennar spannar kvikmyndalist, gjörninga, skúlptúra, kóreógrafíu og sviðslistir. Verk hennar hafa verið sýnd víða í heimalandinu og erlendis. Rannsóknir hennar lúta að landfræðilegum fyrirbærum á borð við fjöll og landmótun, og mannlegar, náttúrulegar og menningarlegar tengingar þeirra við jarðsögulegan tíma, samtímann og mögulega framtíð. Verk Helle, rannsóknir og nálgun hafa orðið fyrir miklum áhrifum af þátttöku hennar síðasta áratuginn í ýmsum samstarfsverkefnum í Mið-Austurlöndum (Líbanon, Palestínu og Jórdaníu).
Mazen Maarouf (1978) er palestínskt skáld, þýðandi og blaðamaður. Hann fæddist í Beirút og hefur sent frá sér þrjú ljóðasöfn: The Camera Doesn’t Capture Birds, Our Grief Resembles Bread, An Angel Suspended On a Clothesline, þrjú smásagnasöfn: Brandarar handa byssumönnunum, Rats that Licked the Karate Champion’s Ears og Sunshine on a bench of Substitutes auk einnar nóvellu sem nefnist Curse of Mud-balls Kid. Hann hlaut LiteraturLana-ljóðaverðlaunin og Al-Multaqa-verðlaunin fyrir besta smásagnasafnið. Hann hefur verið á langlista Man Booker International Prize og Edinburgh Book Festival Award og einnig á stuttlista fyrir Saif Ghobash Banipal Prize.
Lisa Gilardino er sýningarstjóri sem býr í Bologna. Síðustu tuttugu árin hefur hún stýrt listahátíðum, stjórnað menningarstofnunum og framleitt og þróað list á alþjóðavettvangi. Meðal annars var hún einn stjórnenda Santarcangelo Festival, elstu nútímalistahátíðar Ítalíu, einn stofnenda Samara Editions-Performances by Post sem gefur út verk sem send eru þátttakendum í pósti, og hún var einn stjórnenda Høstscena-hátíðarinnar í Ålesund í Noregi. Árið 2024 stýrði hún The Sea of Rocks eftir Helle Siljeholm, dansverki fyrir fjall, fimm klifrara og tónlistarmann sem fram fór á fjórum þverhníptum klettum í stórfenglegu landslagi Dólómítafjalla. Lisa elskar fjallgöngur og óvæntar uppákomur.
Verkið var pantað af RDF, með stuðningi frá Perform Europe/Mountain Range Beyond Borders.

