Jólatónleikar Kammersveitar Reykjavíkur á Sígildum sunnudögum

Harpa

7. desember

Miðaverð frá

4.500 kr.

Jólatónleikar Kammersveitar Reykjavíkur eru að þessu sinni helgaðir verkum tveggja af fremstu tónskáldum barokktímans, Johanns Sebastians Bach og Arcangelo Corelli. Á efnisskrá eru tvö af þekktustu verkum Bachs, Hljómsveitarsvíta nr. 3 í D-dúr BWV 1069 og konsert fyrir tvær fiðlur í d-moll BWV 1043. Einleikarar eru Sólveig Steinþórsdóttir og Rannveig Marta Sarc. Á tónleikunum eru tvö verk eftir Arcangelo Corelli á efnisskrá; Concerto grosso í F-dúr op. 6 nr. 2 og hinn þekkti „Jólakonsert“ Corellis í g-moll op. 6 nr. 8.

Kammersveit Reykjavíkur var stofnuð 1974 í því augnamiði að gefa áheyrendum kost á reglulegum tónleikum með kammertónlist og um leið hljóðfæraleikurunum tækifæri til að glíma við áhugaverð verkefni. Óhætt er að fullyrða að Kammersveit Reykjavíkur hafi tekist ætlunarverk sitt því hún hefur átt fastan sess í tónlistarlífi höfuðborgarinnar æ síðan. Sveitin hefur frumflutt fjölda íslenskra og erlendra verka sem samin hafa verið fyrir hana og ennfremur staðið fyrir íslenskum frumflutningi þekktra erlendra verka. Kammersveit Reykjavíkur hefur í gegnum tíðina einnig lagt áherslu á hljóðritun og útgáfu íslenskra tónverka. Ennfremur hefur sveitin gefið út geisladiska með klassískum verkum m.a. Brandenborgarkonserta Bachs, en fyrir þá útgáfu hlaut hún Íslensku tónlistarverðlaunin 2003. Kammersveit Reykjavíkur hefur tvívegis verið tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs; árin 2005 og 2015. Platan Windbells kom út á vegum Sono Luminus árið 2022, en þar leikur Kammersveitin verk eftir Huga Guðmundsson. Hún var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins og sveitin sem flytjandi ársins.

Almennt miðaverð er kr. 4500, en eldri borgurum og öryrkjum býðst að kaupa miðann á kr. 3500 í miðasölu Hörpu. Þar geta námsmenn einnig keypt miðann á afsláttarkjörum eða kr. 2500. Ókeypis aðgangur er fyrir 12 ára og yngri.

Gjafakort fyrir öll tilefni

Gefðu viðburð að eigin vali

Kaupa gjafakort

Nýir viðburðir og tilboð fyrir þig í hverri viku

Skráðu þig á póstlistann

Skrá mig
Messenger