© 2025 Tix Miðasala
Harpa
•
24. maí
Miðaverð frá
4.000 kr.
Kór Öldutúnsskóla í Hafnarfirði mun á þessum tónleikum fagna 60 ára samfelldu söngstarfi þar sem farið verður yfir sögu kórsins í tónum og tali.
Kór Öldutúnsskóla er elsti starfandi barnakór landsins. Hann var stofnaður 22. nóvember, 1965 kl. hálf fimm(!) af Agli Friðleifssyni sem var mikill frumkvöðull í barnakórastarfi landsins bæði sem kórstjóri og sem kennari annarra tónmenntakennara og kórstjóra. Árið 2005 tók núverandi kórstjóri Brynhildur Auðbjargardóttir við tónkvíslinni.
Það má segja að kórinn sé orðinn stofnun í Hafnarfirði en þúsundir barna og unglinga hafa sungið og starfað með kórnum frá stofnun hans. Mörg þeirra hafa gert tónlist að atvinnu og má þar nefna, fyrir utan núverandi kórstjóra: Margréti Pálmadóttur söngkonu, söngkennara og kórstjóra og stofnanda Sönghússins Domus Vox. Söngvarana Hönnu Björk Guðjónsdóttur og dóttur hennar Björgu Birgisdóttur, Guðrúnu Árnýju Karlsdóttur, Margréti Eir Hönnudóttur, Ívar Helgason, Erlu mist Magnúsdóttur, Erlu Jónatansdóttur og Ágúst Ólafsson. Þar má einnig finna gítarleikarann og tónskáldið Hilmar Jenson, tónskáldið Hildi Guðnadóttur, ásamt Valgerði Andrésdóttur og Ingunni Hildi Hauksdóttur píanóleikurum.
Kórinn hefur sungið víða um heim, sungið í sjónvarpi og útvarpi og inn á fjöldann allan af geisladiskum. Kórinn hefur einnig unnið með tónlistarfólki úr fjölbreyttri flóru tónlistarlífs landsins og hefur meðal annars sungið nokkru sinni með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Efnisskrá afmælistónleikanna spannar uppáhaldssönglög núverandi kórfélaga og kórtónlist úr ýmsum áttum úr sögu kórsin. Frumflutt verður nýtt kórverk eftir Finn Karlsson. Fram koma á tónleikunum fyrir utan kóra skólans, söngvarar og hljóðfæraleikarar sem eiga það sameiginlegt að hafa verið í kórnum, þar á meðal kórar með fyrrum kórfélögum.
Meðleikari á píanó er Agnar Már Magnússon.
Stjórnandi er Brynhildur Auðbjargardóttir.
Almennt miðaverð er kr. 4000, en eldri borgurum býðst að kaupa miðann á kr. 3500 í miðasölu Hörpu. 12 ára og yngri greiða engan aðgangseyri.
Áætluð lengd tónleikanna er ein klukkustund, án hlés.