Tríó Sírajón á Sígildum sunnudögum: Ýr og aðrar áttir

Harpa

22. febrúar

Miðaverð frá

4.500 kr.

Tríó Sírajón var stofnað á vordögum árið 2010 og hefur haldið fjölmarga tónleika víðsvegar um landið sem og erlendis. Tríóið efnir gjarnan til samstarfs með öðru tónlistarfólki og hefur pantað ný verk frá íslenskum tónskáldum og frumflutt. Nafn tríósins vekur jafnan forvitni en það er sótt til ættföður Reykjahlíðarættarinnar í Mývatnssveit, Síra (séra) Jóns Þorsteinssonar, sem er forfaðir hljóðfæraleikaranna þriggja.

Efnisskrá tónleikanna:

Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir: Nokkur ljóð um draum (frumfl.)

Hans Gál: Trio (frumfl. á Íslandi)

Francis Poulenc: L´invitation au château - Boðið í kastalanum (leikhústónlist)

                                      hlé

Dimitri Shostakovich: Preludium, Gavotte og Vals (kvikmyndatónlist)

Paul Shoenfield: Klezmer Trio (frumfl. á Íslandi)

Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir: Nokkur ljóð um draum (endurflutt)

Hugleiðing um tónleikana:

Tríósamsetningin fiðla, klarínett og píanó er ekki mjög algeng og má segja að sé tilbrigði við hið klassíska píanótríó þar sem klarínettið kemur í stað sellós eða víólu og gefur nýja möguleika til tjáningar og litbrigða. Rósin í hnappagatinu er splunkunýtt verk eftir Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur en ljós hennar skín skært meðal ungra tónskálda á Íslandi um þessar mundir. Verkið heitir Nokkur ljóð um draum og er innblásið af ljóðum Þorsteins frá Hamri. Það er heiður að fá að kynna Hans Gál (1890-1987 af ungverskum gyðingaættum) fyrir íslenskum áheyrendum. Hann er einn af fjöldamörgum hámenntuðum og hæfileikaríkum gyðingum sem urðu að flýja Vínarborg þegar Hitler komst til valda árið 1933. Hann flúði til Bretlands og settist að í Edinborg. Tónlist hans er lagræn og mannbætandi. Í Vínarborg erum við stödd í Mið-Evrópu og stutt í upprunasvæði klezmer-tónlistarinnar sem gyðinglegir farandtónlistarmenn frá Austur-Evrópu, Balkanlöndunum og víðar að ferðuðust um og fluttu sína mögnuðu tónlist við alls konar mannlegar athafnir og sungu á jiddísku. Þeir voru ofsóttir á 19. öld og fluttu búferlum, aðallega til Bandaríkjanna, þar sem tónlist þeirra gekk í endurnýjun lífdaganna. Bandaríska tónskáldið Paul Shoenfield (1947-2024) vottar þeim virðingu sína í Klezmer Tríói sínu frá árinu 1990. Poulenc og Shostakovich hnýta svo endahnútinn á prógrammið með óborganlegri fyndni, smá hæðni og dásamlegum melódíum!

Tríó Sírajón

Laufey Sigurðardóttir fiðla

Einar Jóhannesson klarínett

Anna Áslaug Ragnarsdóttir píanó

Laufey Sigurðardóttir lærði á fiðlu í Tónlistarskólanum í Reykjavík og í Tónlistarháskólanum í Boston. Hún hefur verið fastráðinn fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands um árabil. Hún hefur jafnframt oft komið fram sem einleikari og frumflutt verk íslenskra tónskálda sem hafa skrifað fyrir hana sértaklega. Laufey hefur verið ötul við flutning kammertónlistar á Íslandi og á meginlandi Evrópu sem og vestan hafs. Hún er listrænn stjórnandi tónlistarviðburðanna „Músík í Mývatnssveit“ og „Afmælisdagur Mozarts“.

Einar Jóhannesson stundaði sitt klarínettnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og The Royal College of Music í London þar sem hann bjó og starfaði í rúman áratug. Hann var leiðandi klarínettleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands um áratuga skeið. Hann hefur unnið til margra verðlauna fyrir leik sinn og komið fram sem einleikari og meðleikari á fjölda tónleika um heim allan. Hann er stofnfélagi Blásarakvintetts Reykjavíkur og er einn sexmenninganna sem skipa miðaldasönghópinn Voces Thules.

Anna Áslaug Ragnarsdóttir er í fríðum hópi fjölmargra tónlistarmanna sem hóf tónlistarnám sitt á Ísafirði. Hún hélt svo til náms í The Royal College of Music í London og Accademia di santa Cecilia í Rómaborg. Hún hefur komið fram sem píanóleikari víða um Evrópu og Norður-Ameríku. Á Íslandi hefur hún oft leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og haldið einleikstónleika, m.a. á vegum Myrkra músíkdaga, Norrænna músíkdaga, Tíbrár og tónlistarfélaganna í Reykjavík, Ísafirði og Akureyri.

Almennt miðaverð er 4500 kr. en eldri borgurum og námsmönnum býðst miðinn á hálfvirði í miðasölu Hörpu.

Gjafakort fyrir öll tilefni

Gefðu viðburð að eigin vali

Kaupa gjafakort

Nýir viðburðir og tilboð fyrir þig í hverri viku

Skráðu þig á póstlistann

Skrá mig
Messenger