Segulstormur - Tríó Sól & Halldór Eldjárn

Flugbjörgunarsveitin Reykjavík - Flugvallarvegi

8. október

Miðaverð frá

4.990 kr.

Annað kvöld tónlistarhátíðarinnar State of the Art fer fram í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík þar sem Tríó Sól stígur á stokk ásamt Halldóri Eldjárn.

Tríó Sól hóf samstarf sitt í Kaupmannahöfn árið 2020 þar sem fiðluleikararnir Emma Garðarsdóttir og Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir stunduðu tónlistarnám með víóluleikaranum Þórhildi Magnúsdóttur. Þær eru óhefðbundinn kammerhópur sem leggur áherslu á samtíma- og þjóðlagatónlist. Þar sem tónverkarófið fyrir þessa hljóðfærasamsetningu er heldur takmarkað hefur hópurinn orðið að vettvangi fyrir nýsmíðar. Gjarnan með tilraunakenndu samstarfi við tónskáld frá ýmsum löndum. Tríóið hefur einnig vakið athygli fyrir skapandi sviðsframkomu þar sem stapp, bogahreyfingar, söngur, tal og fleira hefur verið fléttað inn í hljóðfæraleikinn.

Á tónleikunum mun tríóið frumflytja verk eftir Halldór Eldjárn og Svetlana Veschagina og leika fleiri nýleg verk sem hafa verið samin sérstaklega fyrir tríóið. Halldór Eldjárn er tónskáld og listamaður sem vinnur á mörkum tónlistar og tækni. Hann hefur skapað verk þar sem hljóðheimar, vísindi og forritun fléttast saman, allt frá sinfónískum verkum yfir í gagnadrifna tónlist. Í verki hans á tónleikunum mun tónskáldið sjálft stíga á stokk með tríóinu og spila á hljóðgervil og fundin hljóð. Það byggir á eðlisfræðilegum eiginleikum sólarinnar í stjörnukerfi okkar. Norðurljósin eru bein afleiðing sólargosa þar sem segulmagnaðar eindir strjúkast við jónahvolfið á jörðinni okkar. Útkoman er sjónarspil sem á sér engan líka en hreyfingar norðurljósanna eru túlkaðar með bogahreyfingum strengjaleikaranna í gegnum grafíska nótnaskrift.

Tónleikarnir fara fram 8. október í Flugbjörgunarsvetinni í Reykjavík við Flugvallarveg og hefjast kl 20. Miðasala er á tix.is, miðaverð er 4.990 kr og húsið opnar hálftíma fyrir tónleika. Einnig er hægt að næla sér í hátíðarpassa State of the Art sem veitir aðgang að öllum viðburðum hátíðarinnar.

Gjafakort fyrir öll tilefni

Gefðu viðburð að eigin vali

Kaupa gjafakort

Nýir viðburðir og tilboð fyrir þig í hverri viku

Skráðu þig á póstlistann

Skrá mig
Messenger