Wadada Leo Smith / Jakob Bro / Skúli Sverrisson / Matthías Hemstock

IÐNÓ

18. nóvember

Miðaverð frá

6.900 kr.

Wadada Leo Smith / Jakob Bro / Skúli Sverrisson / Matthías Hemstock

Þau tímamót eru í nóvember að bandaríski trompetleikarinn og tónskáldið Wadada Leo Smith verður á tónleikaferðalagi í Evrópu í síðasta skipti á ferli sem spannar meir en 6 áratugi. Hann hefur heimsótt Ísland níu sinnum á rúmlega 40 árum til tónleikahalds og kennslu, stundum í langan tíma í einu. Á þessu tímabili hefur hann haft mikil áhrif á íslenska tónlistarmenn og átt samstarf við fjölmarga, m.a. Skúla Sverrisson, Matthías Hemstock, Magnús Trygvason

Elíassen, Hilmar Jensson o.fl. sem hafa komið fram með honum og einnig leikið inn á upptökur. Tónleikar Wadada og píanóleikarans Vijay Iyer í Hörpu í janúar 2017 voru vel sóttir og eftirminnilegir. Samstarfsfólk Wadada á Íslandi vill nota tækifærið á fyrirhugaðri hinstu tónleikaferð hans til Evrópu og efna til síðustu tónleika á Íslandi 18. nóvember, til að fagna þeim tímamótum og þakka fyrir framlag Wadada til íslenskrar tónlistar.

Wadada Leo Smith er frumkvöðull í bandarískri jazz- og nútímatónlist og einn af helstu trompetleikurum samtímans. Árið 2016 var hann valinn besti trompetleikari jazzins og jazzmaður ársins af tímaritinu DownBeat og samtök jazzblaðamanna völdu hann tónskáld ársins 2015.

Í gagnrýnenda vali DownBeat tímaritsins í ágúst 2025:

  • Wadada Leo Smith valinn #2 sem trompetleikari ársins.

  • Dúettplata Wadada og Aminu Claudine Myers valin #6 yfir bestu plötur síðasta árs.

  • Einnig var Wadada ofarlega á lista til að komast í “Hall of Fame” tímaritsins.

Óður hans til mannréttindabaráttu, fjögurra geisladiska kassinn Ten Freedom Summers, var tilnefndur til Pulitzer-tónlistarverðlaunanna 2013. Auk tónlistarflutnings hefur Wadada kennt tónsmíðar við Bard College, CalArts og Harvard skólann. Trompetmeistarinn og tónskáldið hefur á síðustu árum hlotið margar viðurkenningar eins og æðstu viðurkenningu UCLA háskólans til leikmanna 2019, en aðrir sem hafa hlotið þá viðurkenningu eru m.a. Ella Fitzgerald, Henry Mancini, Herb Alpert og Quincy Jones, rithöfundurinn Toni Morrison og Bill Clinton fyrrverandi forseti. Wadada var árið 2023 tekinn inn í American Academy of Arts and Letters, heiðurssamfélag listamanna og rithöfunda, fyrir framlag sitt til tónlistarsköpunar.

Í mars á þessu ári kom út ný dúettplata Wadada og píanóleikarans Vijay Iyer, Defiant Life hjá ECM útgáfunni sem þeir hafa hlotið mikið lof fyrir.

Á tónleikunum með Wadada spila Jakob Bro gítarleikari, Skúli Sverrisson bassaleikari og Matthías Hemstock trommuleikari.

Danski gítarleikarinn og tónskáldið Jakob Bro hefur vakið mikla athygli í jazzheiminum síðustu ár fyrir fjölbreytta tónlist sína. Hann hefur gefið út meira en 20 hljóðritanir með mörgum heimsþekktum tónlistarmönnum og hlotið mikið lof fyrir. Síðasta plata hans sem kom út hjá ECM útgáfunni í fyrra hlaut m.a. 5 stjörnur hjá gagnrýnanda breska blaðsins Guardian. Bro hefur margsinnis komið til Íslands til tónleikahalds, m.a. leikið með Skúla Sverrissyni og Óskari

Guðjónssyni í Norðurljósasal Hörpu á jazzhátíð Reykjavíkur 2022 og aftur í maí 2025 á tónleikaferð um Ísland.

Bassaleikarinn og tónskáldið Skúli Sverrisson hefur átt langan tónlistarferil og leikið inn á rúmlega 100 hljóðritanir með fjölmörgu tónlistarfólki, m.a. Wadada Leo Smith, Hildi Guðnadóttur, Báru Gísladóttur, Hilmari Jenssyni, Jim Black, Chris Speed, Anthony Burr, Laurie Anderson, Allan Holdsworth, Ryuichi Sakamoto, David Sylvian, Blonde Redhead, Yungchen Lhamo, Jamshied Sharifi og Ólöfu Arnalds og hljómsveitunum Pachora, og Alas No Axis. Skúli hefur einnig verið tónlistarstjóri í hljómsveit tónlistarkonunnar Laurie Anderson.

Matthías Hemstock trommu- og slagverksleikari nam við Tónlistarskóla FÍH og Berklee College of Music í Boston. Hann hefur leikið afar fjölbreytilega tónlist gegnum tíðina;með Sinfóníuhljómsveit Íslands, frjálsan spuna, latíntónlist, rokk, popp og síðast en ekki síst hefur

hann verið einn af helstu jazztrommuleikurum landsins síðustu áratugina. Í júní fékk Matthías styrkveitingu frá minningarsjóði Kristjáns Eldjárns fyrir framlag sitt til tónlistar.

Gjafakort fyrir öll tilefni

Gefðu viðburð að eigin vali

Kaupa gjafakort

Nýir viðburðir og tilboð fyrir þig í hverri viku

Skráðu þig á póstlistann

Skrá mig
Messenger