© 2025 Tix Miðasala
Harpa
•
24. maí
Miðaverð frá
7.990 kr.
TÓNLIST STEELY DAN FLUTT Í HÖRPU
Laugardaginn 24. maí stígur á svið í Norðurljósasal Hörpu, sveit valinkunnra íslenskra tónlistarmanna undir nafninu Reykjavik Tribute Orchestra og flytur tónlist Steely Dan á tónleikum en öll eru þau gallharðir Steely Dan aðdáendur. Sveitin hefur komið fram nokkrum sinnum áður og hafa viðtökur tónleikagesta verið virkilega góðar. Eins eru áhorf á efni frá tónleikum sveitarinnar á YouTube farin að telja í tugum þúsunda. Á efnisskránni verða lög af öllum plötum Steely Dan frá 1972 til 1980 auk laga af sólóskífu Donald Fagen, The Nightfly. Tónleikagestir mega búast við að heyra lög eins og Do It Again, Reelin’ In The Years, Aja, Rikki Don’t Lose That Number, Kid Charlemagne, Black Cow, Peg, Josie, Babylon Sisters, Hey Nineteen og I.G.Y.
Óhætt er að lofa frábærum tónleikum við bestu aðstæður þar sem ekkert verður til sparað til að koma tónlist Steely Dan vel til skila í lifandi flutningi.
“Það var hreint út sagt magnað að sjá þennan ótrúlega lagabálk verða ljóslifandi á sviði Bæjarbíós haustið 2022. Þessar snilldarlegu lagasmíðar, sem eru ekki beint einfaldar, voru fluttar af mikilli fagmennsku og innlifun og ástríðan fyrir efninu, sem var merkjanleg hjá öllum hlutaðeigandi, var svo gott sem áþreifanleg.” - Arnar Eggert Thoroddsen, tónlistargagnrýnandi og Steely Dan aðdáandi
„Tónlist Steely Dan er svo ótrúlega fágætt eynakonfekt að síst hefði mann grunað að nokkur hérlend sveit myndi einu sinni reyna að að endurskapa þann hljóm og þá fágun sem einkennt hefur Steely Dan frá fyrstu tíð. Það kom manni því verulega á óvart hversu „spot-on“ þeir félagar í Reykjavik Tribute Band reyndust þegar þeir stigu á svið undir merkjum Steely Dan í Bæjarbíói fyrir skemmstu. Allur flutningur var til slíkrar fyrirmyndar að með ólíkindum þótti. Að öðrum ólöstuðum kom þó forsöngvarinn Karl Olgeirsson fólki mest á óvart, því aldrei hafði maður heyrt hann fara með þvílíkum himinskautum í söngnum. Aldeilis frábært kvöld!“ - Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður og Steely Dan aðdáandi
Steely Dan var ein áhrifamesta hljómsveit áttunda áratugarins. Tónlistin var einstök og frumleg blanda af djass- og popptónlist sem heillaði tónlistaráhugamenn og ekki síður tónlistarmenn á öllum aldri og hefur gert æ síðan.
Donald Fagen og Walter Becker stofnuðu Steely Dan og á árunum 1972 til 1974 var Steely Dan fullmönnuð hljómsveit sem gaf út plöturnar Can’t Buy a Thrill, Countdown To Ecstasy og Pretzel Logic. Frá og með plötunni Katy Lied árið 1975 var Steely Dan í raun orðin tveggja manna sveit þeirra Fagen og Becker sem nutu aðstoðar færustu “session” tónlistarmanna sem völ var á. Hin frábæra The Royal Scam kom út árið 1976 og meistaraverkið Aja kom svo út árið 1977 en hún er af mörgum talin ein allra besta plata tónlistarsögunnar. Ætlaður svanasöngurinn Gaucho kom svo út árið 1980 og þykir ekki síðri. Donald Fagen sendi frá sér hina stórkostlegu The Nightfly árið 1982 sem er án nokkurs vafa með betri plötum níunda áratugarins. Öllum að óvörum hófu Fagen og Becker aftur tónleikahald á miðjum tíunda áratugnum og gáfu út tvær nýjar breiðskífur á fyrstu árum nýrrar aldar og hlutu Grammy verðlaun fyrir. Steely Dan voru vígðir inn í Rock and Roll Hall of Fame árið 2001 og plötur þeirra hafa selst í meira en 40 milljónum eintaka um allan heim.
Hljómsveitina skipa:
Eiður Arnarsson - bassi
Karl Olgeirsson - hljómborð og söngur
Friðrik Karlsson - gítar
Pétur Valgarð Pétursson - gítar
Þórir Úlfarsson - hljómborð og bakraddir
Una Stefánsdóttir - söngur og bakraddir
Hildur Vala Einarsdóttir - söngur og bakraddir
Jóhann Hjörleifsson – trommur
Björgvin Ragnar Hjálmarsson - saxófónn
Ívar Guðmundsson - trompet
Jóel Pálsson – saxófónn
https://youtu.be/dsNJ2Hqc0BQ?si=eTF5PJSongGJvfEw