© 2025 Tix Miðasala
Harpa
•
17. janúar
Miðaverð frá
7.990 kr.
Píanóleikarinn Magnús Jóhann og saxófónleikarinn Óskar Guðjónsson hafa marga fjöruna sopið, saman og í sitthvoru lagi. Óskar er einn fremsti djasstónlistarmaður landsins og Magnús einn virkasti músíkant í Reykjavík. Leiðir þeirra lágu fyrst saman í hljómsveitinni Moses Hightower og með söngkonunni Bríeti en haustið 2024 gáfu þeir út hljómplötuna Fermented Friendship. Platan inniheldur nýjar tónsmíðar þeirra beggja þar sem dúnmjúkur hljómur Óskars nýtur sín vel í samtali við fagran píanóleik Magnúsar. Þeir hljóðrituðu plötuna í Norðurljósasal Hörpu í maí 2023 eftir vetrarlangt undirbúningsferli og nú snúa þeir aftur, tæplega tveimur árum síðar, og fagna útgáfu plötunnar með því að flytja hana í heild sinni þar sem hún varð til.
Við upptökur á plötunni var góður andi en öll ljós voru slökkt að undanskildum ljóstýrum gamalla lampa á miðju gólfinu. Rökkrið umlukti tvíeykið og fangaði vel anda tónlistarinnar. Þessi andi mun svífa yfir vötnum í Norðurljósum 17. janúar en Magnús og Óskar verða staðsettir á miðju gólfi salarins umkringdir lömpum í rökkrinu en með þessu móti gefst einstakt tækifæri til að upplifa plötuna nákvæmlega eins og hún hljómaði þegar hún var hljóðrituð. Hljómplatan Fermented Friendship verður flutt í heild sinni auk nokkurra vel valinna verka en tónleikarnir verða uþb klukkustund og hefjast kl 20. Salurinn opnar kl 19:30.
Frá unglingsárum hefur Óskar Guðjónsson verið eftirsóttur saxófónleikari í íslensku tónlistarstórfjölskyldunni. Spunatónlist, djass, stendur hjarta hans næst. Á þeim vettvangi hefur hljómsveit hans ADHD vakið verðskuldaða athygli innan og utan landsteinanna. Óskar hefur einnig starfað með ógrynni listafólks en þar má t.d nefna Mezzoforte, Tómas R Einarsson, Jim Black, Aaron Parks og Ásgeir Trausta svo nokkur dæmi séu tekin. Samstarf Óskars og Skúla Sverrissonar, bassaleikara og tónskálds, hefur einnig verið gæfuríkt og galopnað augu og eyru Óskars fyrir fleiri möguleikum jazztónlistar. Afraksturinn er tvær plötur og ótal tónleikar.
Magnús Jóhann Ragnarsson hefur frá árinu 2015 hefur verið mjög virkur sem tónlistarflytjandi, tónskáld og upptökustjóri en hann hefur leikið inná hundruði hljóðrita og kemur fram á fjölmörgum tónleikum á ári hverju. Moses Hightower, Floni, Ingibjörg Turchi, Aron Can og Bubbi Morthens eru dæmi um samsstarfsaðila hans en sjálfur hefur Magnús gefið út fjölda sólóplatna og tvær stuttskífur. Auk þeirra gaf hann út dúóplöturnar Án tillits 2021, með Skúla Sverrissyni, Tíu íslensk sönglög 2022 og Nokkur jólaleg lög 2024 með GDRN auk Fermented Friendship með Óskari Guðjónssyni 2024. Magnús Jóhann var valinn tónlistarflytjandi ársins í opnum flokki á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2023 og er einn af stofnendum tónlistarhátíðarinnar State of the Art sem fór fram í fyrsta sinn haustið 2024.
Tónleikarnir eru rúm klukkustund, án hlés.