© 2024 Tix Miðasala
Tónlistarmiðstöð Austurlands
•
3. desember
Miðaverð frá
0 kr.
Í tilefni aðventunnar bjóða Tónlistarmiðstöð Austurlands og Menningarstofa Fjarðabyggðar ásamt góðum styrktaraðilum gestum og gangand á sýninguna
Ævintýri á aðventu
með Hnoðra í norðri
Jólin eru að koma og systurnar Solla og Gunna eru að springa af spenningi! Það er allt svo skemmtilegt og skrítið: Jólalykt, jólalög, jólagjafir - og ekki má gleyma skónum sem fer út í glugga. Solla er reyndar ekkert glöð þegar hún fær vettlinga í skóinn.
„Ég vil enga mjúka pakka
og neita fyrir þá að þakka.“
Gunna segir henni að það sé best að vara sig á heimtufrekju og auðvitað er það rétt hjá henni, því bæði Grýla og Jólakötturinn eru sammála um að það sé gott að börn séu óþekk.
„Mér líst vissulega vel á þau flest, en verstu börnin bragðast samt best.“
Þegar systurnar fara í bæjarferð til að kaupa gjafir komast þær í hann krappan þegar þær rekast bæði á jólasvein og sjálfan köttinn. Þá kemur sér vel að kunna allar jólareglur og jólalög sem gilda á aðventunni.
Ævintýri á aðventu er gleðilegt jólasöngverk úr smiðju sviðslistahópsins Hnoðra í norðri sem sniðinn er að börnum á 6-10 ára aldri, en ætti að koma öllum aldurshópum í jólaskap. Verkið er stutt og laggott, eða um 30 mín að lengd, fyndið og efniviður sóttur í hinn undarlega íslenska jólasöguarf.
Verkið er eftir tón- og textasnillinginn Þórunni Guðmundsdóttur og í því koma fyrir misyndælar en rosa jólalegar persónur. Grýlu finnst góðu börnin verst, en vondu börnin best - á bragðið! Jólakötturinn vill helst bara vera heima í helli að spila á harmonikku og fá börnin flutt þangað með heimsendingarþjónustu. Systurnar Solla (á bláum kjól) og Gunna (á nýju skónum?) verða viðskilja í jólagjafaleiðangri - enda kann Solla hvorki að bíða né að hlýða... þó hún fari nú reyndar jafnan eftir jólalögunum. Stúfur heitir í raun Sigurður (og dreymir um að eiga upphækkaðan jeppa).
Leikstjóri verksins er Jenný Lára Arnórsdóttir, sem einnig hannar leikmynd, en búningar eru úr smiðju Rósu Ásgeirsdóttur. Flytjendur eru Jón Þorsteinn Reynisson harmonikkuleikari og söngkonurnar Jóna G. Kolbrúnardóttir og Erla Dóra Vogler.
Gestir þurfa að panta sér aðgöngumiða á TIX.is en þeir eru öllum að kostnaðarlaus en þannig getum við sem að sýngunni stöndum gert ráðstafanir og undirbúið okkur fyrir komu gesta.
Hlökkum til að sjá ykkur og gleðilega aðventu!