Sígildir sunnudagar: De lumine - útgáfutónleikar

Harpa

10. nóvember

Miðaverð frá

2.700 kr.

Í tilefni af útgáfu geisladisksins De Lumine hjá breska útgáfufyrirtækinu Ulysses Arts í nóvember 2024 mun Sif Margrét Tulinius fiðluleikari flytja íslensku tónverkin þrjú sem prýða diskinn.

Þessi tónverk fyrir einleiksfiðlu eftir tónskáldin Hjálmar H. Ragnarsson, Huga Guðmundsson og Viktor Orra Árnason voru öll samin fyrir Sif Margréti og frumflutt af henni á tónleikaröðinni Bach & nútíminn sem fram fór á starfsárinu 2021-2022. Tónleikaröðin var eins konar þríleikur þar sem Sif flutti á þrennum tónleikum allar þrjár sónötur J.S. Bach ásamt því að frumflytja þrjú íslensk einleiksverk fyrir fiðlu. Íslensku tónverkin þrjú eru eðlilega af mismunandi gerð og karakter, en þau eru öll frekar stór í sniðum þar sem heimur fiðlunnar er kannaður til hins ítrasta og gerðar eru miklar kröfur til hljóðfæraleikarans hvað varðar tæknilega útfærslu og hugmyndaauðgi. Öll bera þau með sér sterk einkenni hvers tónskálds fyrir sig og eru mikilvægar tónsmíðar í safn fiðlu tónbókmennta framtíðar.

Sif Margrét Tulinius fiðluleikari lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1991 go hlaut í kjölfarið Fulbright styrk til frekara náms í Bandaríkjunum þaðan sem hún lauk B.A. gráðu með láði frá Oberlin háskóla í Ohio og síðar meistaragráðu frá New York í samstarfsverkefni milli Juilliard tónlistarskólans og Stony Brook háskólans. Á námsárum sínum tók Sif þátt í fjölmörgum virtum tónlistarhátíðum, s.s. Aspen Music Festival og Prussia Cove Music Festival en að námi loknu fluttist Sif til Evrópu og lék ásamt ýmsum tónlistarhópum á fjölmörgum tónlistarhátíðum um heiminn. Haustið 2000 keppti Sif um stöðu 2. konsertmeistara við Sinfóníuhljómsveit Íslands og var í kjölfarið ráðin til starfa. Hún gegndi því starfi allt til ársins 2016 er hún fluttist til Berlínar þar sem hún bjó um nokkurra ára skeið og lék ásamt fjölmörgum virtum tónlistarhópum m.a. Berliner Philharmoniker. Sif hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands m.a. í flutningi á fiðlukonserti Gubaidulina, Fylgjum Þorkels Sigurbjörnssonar og Partitu eftir Lutoslawski. Sif hefur bæði sjálfstætt og ásamt öðrum tekið virkan þátt í flutningi nútímatónlistar og unnið náið með mörgum af okkar helstu tónskáldum.

Efnisskrá

Viktor Orri Árnason (1986): Dark Gravity
Part I
Part II
Part III
Part IV

Hugi Guðmundsson (1977): Praesentia

hlé

Hjálmar H. Ragnarsson (1952): Partíta
Vigoroso, Liberamente
Semplice, con grazia
Risoluto, accentato
Andante, arioso
Scintillante, brillante

Viktor Orri Árnason (1987) starfar í ólíkum geirum tónlistarinnar sem tónskáld, hljóðfæraleikari, stjórnandi og liðsmaður hljómsveitarinnar Hjaltalín. Hann nam fiðlu- og víóluleik við Listaháskóla Íslands og lauk þaðan BA prófi. Hann stundaði einnig framhaldsnám við Hochschule für Musik Hanns Eisler í Berlín og lauk þaðan BA prófi í tónsmíðum. Um verkið Dark Gravity skrifar Viktor Orri: Ég sótti innblástur verksins í eina af ráðgátum heimsins. Myndir þú trúa því að þegar við reiknum út massa þess raunverluleika sem við þekkjum og skiljum í dag – stjörnur, vetrarbrautir og svarthol, þá virðist vanta massa sem um nemur 85% af þeim raunveru- leika? Sá óskiljanlegi raunveruleiki veldur sams konar þyngdarafli og sjáanlegur og áþreifanlegur raunveruleiki. Dark Gravity veltir fyrir sér eðli þess raunveruleika sem er óáþreifanlegur og ósýnilegur.

Hugi Guðmundsson (1977) nam tónsmíðar og raftónsmíðar og raftónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík, Konunglegu tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn og Sonology stofnunina í Den Haag. Hugi hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir list sína og má þar nefna íslensku tónlistarverðlaunin. Kraumsverðlaunin, þrjár heiðurstilnefningar á alþjóðlega tónskáldaþinginu, fyrstu verðlaun í tónsmíðakeppni Norrænna músíkdaga og þrjár tilnefningar til Tónlistarverðlauna norðurlandaráðs. Árið 2014 hlaut hann hæsta styrk sem veittur er af danska ríkinu til tónskálda, í formi þriggja ára starfslauna. Fyrsti fiðlukonsert Huga bar titilinni Absentia (e. Fjarvera). Praesentia, sem gæti útlagst sem Nærvera á íslensku, speglar sig í því verki í vissum tónsmíðaaðferðum og er titillinn þaðan sprottinn. Verkið er í nokkurs konar rondó formi þar sem tónlistin leitar aftur og aftur tilbaka að látlausum kóral með endurteknum hljómum en á milli þeirra staða fer fiðlan með okkur um víðan völl í virtúósískum leik.

Hjálmar H. Ragnarsson (1952) hefur verið atkvæðamikill sem tónskáld frá því hann lauk framhaldsnámi í Bandaríkjunum og Hollandi. Verk hans spanna allt frá einleiksverkum til stærri sinfónískra verka og frá einsöngslögum til söngleikja og ópera. Þá hefur hann samið tónlist fyrir fjölda leiksýninga og kvikmyndir, auk þess sem hann hefur unnið með ýmsum kórum og sönghópum, bæði sem tónskáld og stjórnandi. Hjálmar skrifar í tilefni af smíði Partítunnar: "Ég var að klára nýtt tónverk, meira að segja stórt tónverk í fimm þáttum, fyrir sóló fiðlu. Það er ekki um neitt, alls ekki neitt, bara tónar, tónbil, hendingar, ryþmar, - hljóðin sem heyrast þegar boga er strokið á streng. Ekert annað, engin meining og enginn boðskapur, ekkert prógramm og engin frásögn, og alls engin skilaboð eða pólitík, hvað þá forsögn eða umvöndun. Á tímum ofhlaðinna merkinga og síbylju félagslegra skilaboða er dásamlega frelsandi að skrifa tónlist um ekki neitt, tónlist sem er bara hún sjálf og um sig sjálfa."

Ljósmynd:Magnús Andersen

Gjafakort fyrir öll tilefni

Gefðu viðburð að eigin vali

Kaupa gjafakort

Nýir viðburðir og tilboð fyrir þig í hverri viku

Skráðu þig á póstlistann

Skrá mig
Messenger