© 2025 Tix Miðasala
Harpa
•
13. apríl
Miðaverð frá
4.900 kr.
Chalumeaux-tríóið og vinir flytja tónlist eftir W.A. Mozart og samferðamenn hans.
Chalumeaux-tríóið var stofnað árið 1990 af klarínettuleikurunum Kjartani Óskarssyni, Óskari Ingólfssyni og Sigurði I. Snorrasyni. Við lát Óskars árið 2009 tók Ármann Helgason sæti hans í tríóinu. Þeir félagar leika á flestar gerðir klarínettuhljóðfæra.
Þungamiðjan á verkefnaskrá Chalumeaux-tríósins hefur ávallt verið samtímatónlist og á liðnum árum hefur tríóið flutt fjölmörg verk, innlend og erlend, sem mörg hver hafa verið samin sérstaklega fyrir tríóið. Annar stór þáttur á verkefnaskránni eru verk Mozarts. Á þessum tónleikum verða flutt verk Mozarts fyrir klarínettur og bassetthorn, bæði fullfrágengin verk, en einnig tónsmíðar sem hann hafði ekki að fullu lokið við þegar hann lést, en seinni tíma menn hafa svo fullunnið. Á efnisskránni er líka að finna fimm næturljóð og eina kansónettu fyrir þrjá söngvara, klarínettur og bassetthorn, sem Mozart samdi á árunum 1783-1788 fyrir sig og vini sína til að leika og syngja á góðum samverustundum í heimahúsum. Að auki verða fluttar aríur, dúettar og terzettar úr óperunum Brúðkaup Figaros og Cosi fan tutte, sem þeir Kjartan og Sigurður hafa umritað fyrir söngvara og klarínettuhljóðfæri.
Kammerkvartettinn er klassískur söngkvartett sem er hluti Kammeróperunnar og hefur verið starfandi síðan haustið 2021. Kvartettinn skipa þau Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran, Kristín Sveinsdóttir mezzósópran, Eggert Reginn Kjartansson tenór og Unnsteinn Árnason bassi. Þau byrjuðu ung að koma fram saman í Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar og síðan lá leið þeirra allra til Vínarborgar í framhaldsnám í söng. Nú eru þau öll búsett hérlendis og vilja taka virkan þátt í að efla óperulistformið á Íslandi.