© 2024 Tix Miðasala
Reykjavík
•
8. október
Miðaverð frá
14.900 kr.
State of the Art er ný tónlistarhátíð sem fer fram í fyrsta sinn á ýmsum stöðum í Reykjavík dagana 8.-13. október næsta haust. Hátíðin er stofnuð í þeim tilgangi að skapa nýjan vettvang til aukins samstarfs milli listamanna, auka blöndun strauma og stefna og leita að nýju samhengi fyrir tónlist á ýmsum aldri. Hún er ekki bundin við eina ákveðna tónlistar- eða listastefnu heldur setur sígilda tónlist í nýtt samhengi, blandar saman listamönnum úr mismunandi stefnum og setur listafólk sem aldrei hefur unnið saman áður í nýjar aðstæður.
Nafn hátíðarinnar hefur tvíþætta merkingu: Orðasambandið State of the Art er gjarnan notað um nýjustu tækni og vísindi, það sem efst er á baugi. Í sömu andrá beinir það sjónum að núverandi ástandi í listinni og tengist þannig meginstefi hátíðarinnar, sem er samtími. Á dagskrá hátíðarinnar mætast ný verk og gömul á framandi fleti. Þegar rætt er um samtímalist eiga mörg það til að tengja hugtakið við eitthvað sem þykir krefjandi fyrir augu og eyru. State of the Art skorar þau hugrenningatengsl á hólm og hefur léttleikann í fyrirrúmi í grafalvarlegri glímu sinni við samtímann.
Að hátíðinni standa Bjarni Frímann Bjarnason, Bergur Þórisson og Magnús Jóhann Ragnarsson. Sín á milli hafa þeir viðamikla reynslu af ýmiss konar tónlist. Bergur er básúnuleikari, upptökustjóri og fleira. Hann hefur meðal annars starfað sem tónlistarstjóri Bjarkar Guðmundsdóttir undanfarin 7 ár, auk þess að vera einn stofnenda Reykjavík Recording Orkestra í Hörpu. Magnús er píanóleikari og athafnamikill tónlistarmaður á íslandi í dag, en hann fæst við tónsmíðar, upptökustjórn og tónlistarflutning í frjálsum djassi, rappi, poppi og ýmsu öðru. Bjarni er hljómsveitarstjóri og tónskáld sem hefur komið víða við í tónlistinni, en sígild tónlist á hug hans allan. Nýverið var Bjarni ráðinn sem listrænn stjórnandi hjá Bit20 hljómsveitinni í Bergen. Þremenningarnir ásamt Sverri Páli Sverrissyni eru stofnendur hátíðarinnar. Sverrir lauk meistaranámi í verkefnastjórnun árið 2021 og hefur síðan þá fengist við fjölda viðburða, tónleika, leiksýningar og fleira.