NAI BARGHOUTI OG HLJÓMSVEIT

Harpa

17. apríl

Sala hefst

26. janúar 2026, 12:00

(eftir 4 daga)

Mögnuð kvöldstund með palestínsku tónlistarkonunni Nai Barghouti og fjölþjóðlegri hljómsveit hennar í Eldborg í Hörpu. Arabískar tónlistarperlur, afrísk-amerískur jazz, evrópsk klassík og seiðandi ný tónlist Nai sjálfrar í framúrskarandi flutningi. Missið ekki af einstökum tónlistarviðburði. Miðasala hefst mánudaginn 26.janúar 2026.

Stórkostleg og voldug rödd Nai Barghouti sem er nístandi fögur og býr yfir bæði djúpri sorg og birtu vonarinnar“. (Pitchfork, 2025)

Tónleikar sem urðu að ákalli eftir friði og mennsku…þar sem rödd Nai Barghouti og hið magnaða ferðalag sem hún bauð okkur í, umbreytti okkur“. (The Jazz Mann, 2025)

Palestínska tónlistarkonan Nai Barghouti er rétt tæplega þrítug og hefur vakið athygli víða um heim fyrir einstæða tónlistarhæfileika og söngrödd sem lætur engan ósnortinn. Gagnrýnendur hafa ausið hana lofi fyrir djúpan, persónulegan og afar tjáningarríkan tónlistarflutning, rafmagnaða sviðsframkomu og fágætt samband við hlustendur. Hún byrjaði að koma opinberlega fram á sviði aðeins fjórtán ára gömul og var tvítug útnefnd bjartasta vonin í hollensku tónlistarlífi af hinu virta Concertgebouw-tónlistarhúsi í Amsterdam.

Á tónleikum með Nai Barghouti geta áheyrendur átt von á afar fjölbreyttri efnisskrá þar sem saman fara arabískar tónlistarperlur, afrískur og amerískur jazz, evrópsk klassík og frumsamin tónlist Nai sjálfrar en hún hefur orðið fyrir djúpum áhrifum af söngdívum svo sem hinni egypsku Oum Kulthoum og hinni líbönsku Fayrouz og sækir í þeirra brunn. Nai Barghouti hefur sjálf þróað einstakan söngstíl þar sem jazz og arabískar tónlistarhefðir renna saman en hún segist alltaf hafa fundið sterka þræði á milli jazzspunans og tónlistarhefða Vestur-Asíu og Norður-Afríku.

Nai Barghouti hefur sungið og spilað fyrir troðfullum tónleikasölum víða um heim. Má þar nefna tónleika á London Jazz Festival, Edinborgarhátíðina, Theatre de la Ville í París, Elbphilharmonie í Hamborg, Flagey í Brussel, Concertgebouw í Amsterdam, Kennedy Center í Washington, og fjölmarga tónleika í Palestínu, Jórdaníu, Tyrklandi, Marokkó, Túnis, Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar. Hún kom fram á Wembley-leikvanginum í Lundúnum í september 2025 á samstöðutónleikum fyrir Palestínu, sem skipulagðir voru af Brian Eno, og flutti og útsetti Vögguvísu (Lullaby) ásamt tónskáldinu Kieran Brunt sem kom út haustið 2025 til stuðnings íbúum á Gaza.

Á tónleikunum í Hörpu kemur Nai fram ásamt fjölþjóðlegri hljómsveit sinni en hana skipa Tony Roe á píanó og hljómborð, Khalil Khoury á qanun, Diego Alva á bassagítar og Ruven Ruppik á trommur og slagverk. Sjálf syngur Nai og leikur á flautu.

Tónleikarnir eru liður í dagskrárstefnu Hörpu um fjölbreytta, fyrsta flokks alþjóðlega tónlistarviðburði.

Nai Barghouti minnti okkur á hvers tónlistin er megnug og hversu djúp tilfinningaleg áhrif hún getur haft. Hún var ekki einvörðungu að miðla tónlistinni heldur bauð hún okkur að stíga inn í heim sorgar og fegurðar, ástar og þrár, vonar og viðnáms. Og skildi okkur hlustendur að lokum eftir í djúpri geðshræringu“. (The Jazz Mann, 2025)

Gjafakort fyrir öll tilefni

Gefðu viðburð að eigin vali

Kaupa gjafakort

Nýir viðburðir og tilboð fyrir þig í hverri viku

Skráðu þig á póstlistann

Skrá mig
Messenger