© 2026 Tix Miðasala

Salurinn
•
8. mars
Miðaverð frá
3.900 kr.




Tríóið bjóða upp á litríka og heillandi efnisskrá sem samanstendur af meistaraverkum fyrir mezzo - sópran, flautu og gítar. Flytjendur taka áheyrendur með sér í ferð suður á bóginn, um tvær heimsálfur þar sem komið er við í Frakklandi, Puerto Rico, Brasilíu, Argentínu og Íslandi. Tónleikunum lýkur á verki Steingríms sem samið er við ástarljóð Salvador Dalí til eiginkonu sinar Gala.
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran hefur komið fram sem einsöngvari á tónleikum vítt og breitt um Evrópu, í Suður-Ameríku, Bandaríkjunum og Afríku í tónleikasölum svo sem Henry le Boeuf Hall í Bozar í Brussel, Auditorio Nacional de Música og Teatro Real í Madrid, Glinka sal Fílharmóníunnar og Belozelsky-Belozersky höllinni í St. Pétursborg, Coliseo í Buenos Aires, Wigmore Hall og Royal Festival Hall í London. Hún hefur sungið m. a. með Sinfóníuhljómsveitum Íslands, Madrídar, Barcelóna, Katalóníu, Sjónvarps- og Útvarpshljómsveit Spánar, St. Petersburg State Symphony Orchestra og Philharmonia Orchestra í London. Guðrún hefur sungið í óperum á Spáni, Bretlandi og Íslandi. Hún hefur sungið á fjölmörgum tónleikum víðs vegar um heim með Sonor Ensemble. Guðrún stundaði söngnám hjá Rut Magnússon í Tónlistarskólanum í Reykjavík og hjá Lauru Sarti í Guildhall School of Music and Drama í London. Söngur Guðrúnar hefur verið hljóðritaður á vegum RÚV, Sjónvarpsins, BBC, Spænska ríkisútvarpsins, Spænska sjónvarpsins og var hún einn af söngvurunum sem Sjónvarpið fjallaði um í þáttaröðinni Átta raddir. Hún hefur sungið inn á kvikmyndir, sjónvarpsþætti og inn á sautján geisladiska, m.a. á vegum 12 tóna, Smekkleysu, Naxos, ABU Records, EMEC Discos og Orpheus Classical.Guðrún er, ásamt Francisco Javier Jáuregui, stofnandi og listrænn stjórnandi Sönghátíðar í Hafnarborg sem hefur verið haldin árlega síðan árið 2017 og hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin sem Tónlistarhátíð ársins. Guðrún var ráðin skólastjóri Söngskólans í Reykjavík haustið 2024.
Pamela De Sensi tók einleikarapróf á flautu frá Conservatorio G. Perosi á Ítalíu 1998, lauk "Perfection Flutistic" frá "Accademia di Musica Fiesole" í Florens árið 2000 og útskrifaðist frá "Conservatorio Superiore di S. Cecilia" í Róm árið 2002 með meistaragráðu í kammertónlist með hæstu einkunn.
Einnig hefur hún sótt tíma hjá heimskunnum flautuleikurum s.s. C. Klemm, M. Ziegler, F. Reengli, T. Wye, M. Larrieu og J. Galway. Pamela hefur komið fram á tónleikum víðsvegar, bæði sem einleikari sem og í kammertónlist og má þar nefna Frakklandi, Spáni, Englandi, Kasakstan, Mexíkó, Íslandi, Færeyjum, Finnlandi, í Bandaríkjunum og víðsvegar á Ítalíu, ásamt því að koma reglulega fram hér á Íslandi þar sem hún hefur búið frá árinu 2003., m.a. á tónlistarhátíðunum Myrkum músíkdögum, Tibrá í Salnum, Norrænum músíkdögum, Sumartónleikum í Skálholtskirkju, Menningarnótt, Tectonics, 15:15 tónleikaröðinni og Listahátið í Reykjavík. Árið 2009 var Pamelu boðið að halda tónleika á alþjóðlegri ráðstefnu The National Flute Association í New York og International Flute Festival Flautissimo í Róm árið 2010, 2012 og 2015, International Low Flute Festival í Washington 2018 þar sem hún flutti íslenska tónlist við góðan orðstír. Pamela hefur spilað á plötu Bjarkar UTOPIA.
Spænski gítarleikarinn og tónskáldið Francisco Javier Jáuregui stundaði nám í klassískum gítarleik í Los Angeles og Madríd áður en hann útskrifaðist með meistaragráðu frá Guildhall School of Music and Drama í London. Javier hefur komið fram á tónleikum, bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar víðs vegar í Evrópu, Bandaríkjunum, Afríku og Suðaustur-Asíu. Hann hefur flutt gítarkonserta eftir Vivaldi og Rodrigo og önnur verk með sinfóníuhljómsveitum og kemur reglulega fram með öðru tónlistarfólki. Javier hefur leikið inn á fjölmargar upptökur og geisladiska. Hann hefur kennt á gítar frá árinu 1997, m.a. í London og Madríd og flutt fyrirlestra við háskóla á Spáni og í Bandaríkjunum. Á árunum 2002-2019 tók hann þátt í árlegum tónlistarverkefnum í á annað hundrað skóla á vegum Wigmore Hall tónleikasalarins í London. Javier er einn stofnenda og stjórnenda Festival Internacional de Música de Navarra (FIMNa) á Spáni og Sönghátíðar í Hafnarborg.

