Til Manuelu

Salurinn

11. mars

Miðaverð frá

3.900 kr.

Spönn er ný og fersk kollektíva stofnuð af tveimur tónlistarkonum sem vilja spanna bilið milli hefðar og nýsköpunar í klassískri tónlist.

Fyrsta tónleikaröðin samanstendur af þrennum tónleikum sem allir tengjast flautuleikaranum Manuelu Wiesler og áhrifum hennar á íslenskt tónlistarlíf. Á fyrstu tónleikum Spannar verður flautan í forgrunni og ætlar flautuleikarinn Kristín Ýr Jónsdóttir að ferðast með ykkur um hin sextán nótnagöt flautunnar og staldra við á nokkrum áhrifasvæðum Manuelu með góðum gestum á píanó, fiðlu, víólu og selló.

Tónleikarnir hafa það að markmiði að heiðra og halda á lofti minningu flautuleikarans Manuelu Wiesler. Hún fæddist í Brasilíu árið 1955 en ólst upp í Vín. Hún stundaði framhaldsnám í flautuleik í París þar sem hún kynntist fyrri eiginmanni sínum, Sigurði Snorrasyni klarinettuleikara, og fluttist með honum til Íslands árið 1973, aðeins 18 ára gömul. Eftir viðburðaríkan áratug á Íslandi, þar sem hún öðlaðist nánast goðsagnakenndan sess, skipti hún um svið og fluttist til Svíþjóðar og síðan til Austurríkis, þar sem hún bæði kenndi og kom fram á tónleikum víðsvegar um heiminn. Árið 2025 hefði Manuela orðið 70 ára og í ár eru liðin 20 ár frá dánarári hennar og því við hæfi að minnast þessarar merkiskonu.

Vera Manuelu á Íslandi hafði víðtæk áhrif á íslenskt tónlistarlíf og fyrir hana voru samin mörg ný verk fyrir þverflautu. Hún kenndi flautunemendum og hjálpaði til við útgáfu nýrrar klassískrar tónlistar. Þó Manuela sé mögulega þekktust fyrir flutning nýrra verka þá var það hennar skoðun að eldri og nýrri tónlist héldist í hendur og það að vinna með nýja tónlist hjálpaði við flutning eldri tónlistar, og öfugt. Verkin sem flutt verða á tónleikunum spanna allt frá klassíska tímabilinu til nútímatónlistar og tónskáldin koma frá þeim löndum þar sem Manuela hún bjó, lærði og starfaði.

Manuela veitti hlýju og innblástur hvar sem hún kom, bæði sem manneskja og tónlistarkona. ,,Ég læri svo mikið af fólki sem ég hitti, ég læri af náttúrunni, af börnum og af dýrum. Smámsaman verður allt kennari manns, allt það sem maður upplifir. Allt sem kemur inn fer út aftur.”  

Kristín Ýr Jónsdóttir

Kristín kynntist Manuelu í gegnum fyrrverandi kennara sinn Áshildi Haraldsdóttur þegar hún lærði við Tónlistarskólann í Reykjavík. „Áshildur sagði mér hversu mikil áhrif Manuela hefði haft á þverflautuumhverfið á Íslandi og ég fann hversu mikinn innblástur hún hafði veitt nemendum sínum á Íslandi. Áhrif Manuelu héldu áfram að skjóta upp kollinum eftir að ég fluttist til útlanda til að stunda nám í þverflautuleik. Á meðan ég stundaði bakkalárnám í Kaupmannahöfn ferðaðist ég til Freiburg í Þýskalandi til að sækja tíma hjá prófessornum þar, Mario Caroli, sem tjáði mér með söknuð í hjarta hvað Manuela hefði verið stórkostlegur listamaður og kennari. Núverandi kennari minn Lena Kildahl Larsen hefur sömu sögu að segja, en hún tók tíma hjá Manuelu þegar hún bjó í Vínarborg.“

Með henni koma fram:

Herdís Ágústa Kristjánsdóttir Linnet, píanó

Steiney Sigurðardóttir, selló

Anna Elísabet Sigurðardóttir, víóla

Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir, fiðla

Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði.

Gjafakort fyrir öll tilefni

Gefðu viðburð að eigin vali

Kaupa gjafakort

Nýir viðburðir og tilboð fyrir þig í hverri viku

Skráðu þig á póstlistann

Skrá mig
Messenger