HÁTÍÐARHLJÓMAR VIÐ ÁRAMÓT

Hallgrímskirkja

31. desember

Miðaverð frá

4.900 kr.

HÁTÍÐARHLJÓMAR VIÐ ÁRAMÓT

31. desember – Gamlársdagur kl. 16

Verið velkomin á Hátíðarhljóma við áramót er við kveðjum gamla árið og tökum vel á móti hinu nýja.

Hátíðarhljómar við áramót á Gamlársdag hafa um árabil notið mikilla vinsælda í tónlistarlífi Hallgrímskirkju.

Í ár gefst tónleikagestum kostur á að njóta hátíðlegra tóna fyrir orgel og málmblásarakvintett í ljósaskiptunum á síðasta degi ársins.

 

North Atlantic Brass er málmblásarakvintett sem var stofnaður árið 2019 í Kaupmannahöfn af nemendum frá Íslandi og Danmörku við Konunglega Tónlistarháskólann þar í borg.

Kvintettinn hefur síðastliðin fimm ár fest sig í sessi á kammermúsíksviðinu í Danmörku og heldur reglulega tónleika þar um allt land en á ferlinum hefur hann einnig leikið tónleika á Íslandi, Englandi og í Bandaríkjunum.

Kvintettinn leggur áherslu á fjölbreytt verkefnaval, allt frá endurreisnartónlist til þess að flytja frumsamin verk fyrir hópinn. Einnig er honum norræni þjóðlagaarfurinn hugleikinn og er sú tónlist reglulega flutt á tónleikum í þeirra eigin útsetningum.

Sumarið 2024 tók kvintettinn þátt í alþjóðlegri kammermúsíkkeppni í Los Angeles, Ryan Anthony Memorial Competition, þar sem hann bar sigur úr býtum. Þar léku þeir verk eftir bandarísk og dönsk tónskáld.

Meðlimir kvintettsins eru allir mjög virkir tónlistarmenn í Danmörku og leika reglulega með hljómsveitum á borð við Sinfóníuhljómsveit Danska Ríkisútvarpisins, Dönsku Óperuhljómsveitinni, Copenhagen Phil, Sinfóníuhljómsveitinni í Malmö og Sinfóníuhljómsveit Íslands.

 

Björn Steinar Sólbergsson er organisti og tónlistarstjóri Hallgrímskirkju í Reykjavík. Hann kennir jafnframt orgelleik við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Listaháskóla Íslands.

Björn Steinar stundaði tónlistar­nám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík. Framhaldsnám á Ítalíu hjá James E. Göettsche og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison hjá Susan Landale þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986.

Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár.

Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima, á öllum Norðurlöndunum, í Evrópu og Norður-Ameríku. Hann hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Stavanger og The Cleveland Institute of Music Orchestra. Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geislaplötur, m.a. öll orgelverk Páls Ísólfs­sonar hjá Skálholtsútgáfunni og orgelkonsert Jóns Leifs hjá útgáfufyrirtækinu BIS.

HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR

Gjafakort fyrir öll tilefni

Gefðu viðburð að eigin vali

Kaupa gjafakort

Nýir viðburðir og tilboð fyrir þig í hverri viku

Skráðu þig á póstlistann

Skrá mig
Messenger