Rising Stars | Giorgi Gigashvili, píanó

Harpa

9. maí

Miðaverð frá

5.000 kr.

Georgíski píanóleikarinn Giorgi Gigashili býður upp á undurfallega og litríka efnisskrá í Norðurljósum að kvöldi laugardags, á Rising Stars tónlistarhátíðinni í Hörpu þar sem hann flytur sónötur og ástsæl einleiksverk eftir Domenico Scarlatti, Chopin, Lily Boulanger og Ravel auk glænýs verks eftir samlöndu tónskáldsins, georgíska raftónskáldið Natalie Beridze, samið sérstaklega fyrir Gigashvili.

EFNISSKRÁ

Domenico Scarlatti (1685 - 1757)

Sónata í C-dúr K487

Sónata í D-dúr K29

Sónata í A-dúr K113

Frédéric Chopin (1810 - 1849)

Ballaða nr. 4 í f-moll ópus 52

Natalie Beridze (1979)

Holy Atoms fyrir píanó (2025)

Lily Boulanger (1893 - 1918)

Trois Morceaux pour piano

1. D'un vieux Jardin

2. D'un jardin clair

Maurice Ravel (1875 - 1937)

Miroirs

Giorgi Gigashvili  er fæddur í Tbilisi í Georgíu árið 2000 og á að baki fjölbreyttan tónlistarferil sem píanóeinleikari og popptónlistarmaður. Hann vakti verðskuldaða athygli árið 2019 þegar hann bar sigur úr býtum í Alþjóðlegu píanókeppninni í Vigo á Spáni þar sem hin heimskunna Martha Argerich var formaður dómnefndar. Hann hefur hlotið fjölmörg fleiri verðlaun og viðurkenningar, bæði sem einleikari og á sviði kammertónlistar.

Gigashvili hefur gefið út rómaðar plötur hjá Alpha Classics og leikur með fiðluleikaranum Lisu Batiashvili á plötu sem Deutsche Grammophone gaf út árið 2022. 

Samhliða blómlegum einleikaraferli sinnir Gigashvili verkefnum á sviði popp- og þjóðlagatónlistar. Hann er einn þriggja meðlima í hljómsveitinni Tsduneba sem flytur tónlist sem er innblásin af georgískum þjóðlögum og starfar jafnframt með söngkonunni Nini Nutsubidze þar sem þau blanda georgískri þjóðlagatónlist saman við tilraunakennda raftónlist og klassísk píanóeinleiksverk.

Tónleikaárið 2025 – 2026 verður önnum hlaðið hjá Gigashvili en hann kemur fram í virtum tónleikahúsum víðs vegar um Evrópu og í Norður-Ameríku, sem einleikari og kammertónlistarmaður, meðal annars í Barbican í London, Elbphilharmonie í Hamborg, Concertgebouw í Amsterdam og í Carnegie Hall í New York.

-

Rising Stars er verkefni á vegum ECHO, Samtaka evrópskra tónleikahúsa. Í samtökunum, sem voru stofnuð árið 1991, eru nú 23 tónleikahús í 14 Evrópulöndum.  Aðildarhús ECHO styðja hvert annað með því að deila reynslu og þekkingu og koma af stað metnaðarfullum, alþjóðlegum samstarfsverkefnum. Lögð er rík áhersla á tengsl við listafólk, áhorfendur og samfélagið sem og frumsköpun og stuðning við ungt listafólk.

-

RISING STARS TÓNLISTARHÁTÍÐIN Í HÖRPU

9. - 10. maí 2026 í Norðurljósum

Laugardagur, 9. maí kl. 17

Maat saxófónkvartettinn: Blackbird

Laugardagur, 9. maí kl. 20

Giorgi Gigashvili, píanó

Sunnudagur, 10. maí kl. 17

Valérie Fritz, selló: Learn to unlearn

Sunnudagur, 10. maí kl. 20

Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, sópran og Kunal Lahiry, píanó: Lady Lazarus

Gjafakort fyrir öll tilefni

Gefðu viðburð að eigin vali

Kaupa gjafakort

Nýir viðburðir og tilboð fyrir þig í hverri viku

Skráðu þig á póstlistann

Skrá mig
Messenger