Rising Stars | Maat saxófónkvartettinn - Blackbird

Harpa

9. maí

Miðaverð frá

5.000 kr.

Portúgalski Maat saxófónkvartettinn kemur fram á upphafstónleikum Rising Stars  í Hörpu og flytur litríka og fjölbreytta efnisskrá undir heitinu Blackbird sem hverfist í kringum stef á borð við jafnrétti og frelsi. Hér hljóma baráttusöngvar úr smiðjum Ninu Simone, Paul McCartney og George Gershwin og tónlist eftir konur sem ruddu brautina í karllægum heimi. 

Kvartettinn flytur efnisskrána utanbókar; tónlistin fléttast saman í eina heild með hugleiðingum eða innskotum úr smiðju Hildegard von Bingen, fluttar á víxl af meðlimum kvartettsins og sönglögum sem Catarina Gomes flytur. 

Nýjasta verkið á efnisskránni er eftir hina serbnesk-bandarísku Aleksöndru Vrebalov en hún samdi Four Faces, Four Wings, sérstaklega fyrir Maat-saxófónkvartettinn í tilefni af Rising Stars tónleikaferðalaginu.

Maat saxófónkvartettinn skipa þau Daniel Ferreira á sópransaxófón, Catarina Gomes, sem spilar á altsaxófón og syngur, Pedro Silva á tenórsaxófón og Mafalda Oliveira á barítónsaxófón. 

EFNISSKRÁ

Hildegard von Bingen (1098 - 1179)

O Virtus Sapiente (úts. e. Daniel Ferreira)

Lili Boulanger (1893 - 1918)

Nocturne & Cortege (úts. e. Daniel Ferreira)

Henriette Bosmans (1895 - 1952)

Strengjakvartett (úts. e. Adrian Tully)

George Gershwin (1898 - 1937)

Rhapsody in Blue (úts. e. Johan van der Linden)

Paul McCartney (1942)

Blackbird (úts. e. Camiel Jensen

George Gershwin / Nina Simone (1933 - 2003)

Porgy, I is your woman now (úts. e. Camiel Jensen)

Aleksandra Vrebalov (1970)

Four Faces, Four Wings 

Samið fyrir Maat saxófónkvartettinn

--

Maat saxófónkvartettinn hefur starfað saman frá árinu 2018 en meðlimir hans stunduðu þá allir nám við Konservatoríuna í Amsterdam hjá Arno Bornkamp. Efnisskrá kvartettsins er víðfeðm og spannar allt frá miðöldum og til samtímans en kvartettinn hefur starfað náið með fjölda tónskálda. Kvartettinn hefur hljóðritað þrjár plötur, Ciudades (2020), Renascer (2023) og No one is too small (2024), sem hafa allar komið út hjá 7 Mountain Records útgáfunni. 

Maat saxófónkvartettinn hefur starfað með sviðslistahópum svo sem með dansleikhúsinu AYA að sýningunum Loev (2025) og Wild (2023) og með leikhúsinu Dimantfabriek að óperunni Metamorphosis (2024 - 2025). Maat saxófónkvartettinn hlaut verðlaunin Dutch Classical Talent (Bjartasta vonin í klassísku tónlistarlífi Hollands) árið 2022 og kom í framhaldi af því fram í öllum helstu tónlistarhúsum Hollands. Kvartettinn hefur komið fram á tónleikum víðs vegar í Evrópu, í Brasilíu og í Kína. 

Maat-kvartettinn er tilnefndur sem Rising Stars tónlistarhópur árið 2025 - 2026 af tónlistarhúsunum Fundação Calouste Gulbenkian í Lissabon, Casa da Música í Porto og Philharmonie de Paris í París.

-

Aleksandra Vrebalov er serbnesk-bandarískt tónskáld. Hún hefur samið fjölbreytt verk fyrir ólíka tónlistarhópa og hefur vakið mikla athygli fyrir náið samstarf við Kronos-kvartettinn en hún hefur samið í kringum 20 verk fyrir Kronos sem hafa verið flutt á tónleikum víðs vegar um heiminn. Um nýtt verk sitt fyrir MAAT-saxófónkvartettinn skrifar Aleksandra eftirfarandi:

„Fjögur andlit, fjórir vængir, er samið fyrir MAAT saxófónkvartettinn. Ímyndum okkur hljóðfæraleikarana fjóra þar sem sveigðir saxófónar þeirra verða að einu hljóðfæri, einni veru með fjögur andlit og fjóra sindrandi vængi. Veran býr yfir rafmagnaðri fegurð og óþrjótandi orku sem hún miðlar í gegnum andardrátt og hreyfingu. Hún kallast í við stað í Biblíunni þar sem einn af kerúbum Esekíels hefur stigið niður til jarðar með feykilegum krafti og orku til að fá okkur til að hlusta á hin guðlegu skilaboð. Þar sem ég skrifa þetta sumarið 2025 stendur plánetan okkar í ljósum logum vegna átaka og stríðs þvert á álfur. Ef stórkostlegur engill myndi birtast með skilaboð til handa mannkyni í dag, fælu þau í sér ákall um frið.“

Rising Stars er verkefni á vegum ECHO, Samtaka evrópskra tónleikahúsa. Rising Stars-verkefnið er margþætt; það veitir ungu og framúrskarandi tónlistarfólki færi á að koma fram í frábærum tónlistarhúsum víðs vegar um Evrópu og veitir jafnframt ferskum straumum inn í tónlistarlíf og dagskrá viðkomandi tónlistarhúsa. Verkefnið styður við nýsköpun en þeir hópar og einstaklingar sem valdir eru til þátttöku í Rising Stars panta tónsmíð sem er flutt er á öllum tónleikum viðkomandi. Samhliða tónleikahaldi tekur unga tónlistarfólkið þátt í samfélagslegum tónlistarverkefnum sem lúta að miðlun, kennslu og/eða viðburðahaldi, gjarnan utan hins hefðbundna tónleikasalar en verkefnin eru ákveðin í samstarfi við viðkomandi tónlistarhús.

Um 110 tónleikar fara árlega fram á vegum Rising Stars. Á meðal tónlistarfólks sem komið hefur fram undir merkjum Rising Stars eru fiðluleikararnir Patricia Kopatchinskaja, Renaud Capuçon og Janine Jansen, píanóleikararnir Khatia Buniatishvili og Igor Levit, sellóleikarinn Kian Soltani og strengjakvartettarnir Quarteto Casals og Belcea Quartet.

ECHO, samtök evrópskra tónleikahúsa, voru stofnuð árið 1991 en í samtökunum eru nú 23 tónleikahús í 14 Evrópulöndum.  Aðildarhús ECHO styðja hvert annað með því að deila reynslu og þekkingu og koma af stað metnaðarfullum, alþjóðlegum samstarfsverkefnum. Lögð er rík áhersla á tengsl við listafólk, áhorfendur og samfélagið sem og frumsköpun og stuðning við ungt listafólk.

RISING STARS Í HÖRPU

9. - 10. maí 2026 í Norðurljósum

Laugardagur, 9. maí kl. 17

Maat saxófónkvartettinn: Blackbird

Laugardagur, 9. maí kl. 20

Giorgi Gigashvili, píanó

Sunnudagur, 10. maí kl. 17

Valérie Fritz, selló: Learn to unlearn

Sunnudagur, 10. maí kl. 20

Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, sópran og Kunal Lahiry, píanó: Lady Lazarus

Gjafakort fyrir öll tilefni

Gefðu viðburð að eigin vali

Kaupa gjafakort

Nýir viðburðir og tilboð fyrir þig í hverri viku

Skráðu þig á póstlistann

Skrá mig
Messenger