Elly Vilhjálms 90 ára

Harpa

28. desember

Miðaverð frá

5.990 kr.

Vesturport kynnir 90 ára stórafmælistónleika til heiðurs Elly Vilhjálms í Eldborgarsal Hörpu 28. desember. Katrín Halldóra flytur allar helstu dægurlagaperlur þessarar dáðu söngkonu ásamt góðum gestum og stórhljómsveit undir stjórn Guðmundar Óskars Guðmundssonar, í nýjum útsetningum eftir Hjört Ingva Jóhannsson.

Þann 28. desember, 2025 eru liðin 90 ár frá fæðingardegi Ellyjar Vilhjálms, en þessi hægláta Suðurnesjastúlka, sem var í senn röggsöm heimskona en um leið feimin sveitastúlka, sem heillaði með einstakri rödd sinni og söngtúlkun, fæddist sama dag árið 1935.

Vesturport, sem stóð að leiksýningunni um Elly í Borgarleikhúsinu við fádæma vinsældir, stendur nú að tónleikunum í tilefni stórafmælis þessarrar merku söngkonu – og er því um einstakan viðburð að ræða.

Elly Vilhjálms hóf söngferil sinn á þeim árum þegar söngkonur og söngvarar nutu ekki starfsöryggis. Flestar danshljómsveitir lögðu áherslu á leikna tónlist, án söngs. Söngvarar voru eingöngu til skrauts og ekki var reiknað með því að þeir sinntu söngnum í mörg ár, sérstaklega ekki konurnar. Um leið og þær gengu í hjónaband var ætlast til þess að þær sinntu heimili og börnum og hættu að koma fram á danshúsum á kvöldin og um helgar. Starf söngvara var íhlaupavinna en þegar Elly ruglaði saman reitum við fyrsta eiginmann sinn, Eyþór Þorláksson, gekk hún jafnframt í hljómsveit hans. Eftir að hjónabandi þeirra lauk söng hún með KK sextett í nokkur ár. Þegar hún tók saman við annan gítarleikara, Jón Pál Eyjólfsson, söng hún í hljómsveit hans.

Elly söng inn á sína fyrstu plötu eftir að hafa staðið í sviðsljósinu í sjö ár, en fram að því hélt hún því fram að rödd hennar myndi „hljóma hræðilega“ á upptökum. Tveimur árum síðar var það kvikmyndalagið “Vegir liggja til allra átta“, sem gerði hana að landsfrægri söngstjörnu. Skömmu síðar gekk hún í eina þekktustu hljómsveit landsins og varð í kjölfarið eiginkona hljómsveitarstjórans, Svavars Gests. Saman ráku þau eina öflugustu hljómplötuútgáfu landsins og þar með hófst nýtt söngskeið, þegar hún gerði vinsælar hljómplötur með yngsta bróður sínum, Vilhjálmi Vilhjálmssyni.

Söngkonur þurftu að leggja meira á sig en karlar og miklar kröfur voru gerðar til þeirra. Talsverður kostnaður fylgdi því að líta vel út. Þær þurftu að eiga kjóla og skó til skiptanna á meðan karlarnir gátu notað sömu fötin árum saman. Söngkonur landsins voru annaðhvort dýrkaðar eða fordæmdar, allskonar gróusögur voru á kreiki og þetta gat verið mannskemmandi starf og alls ekki fyrir grandvarar konur. Það breytti engu að það færðist í vöxt að ungar konur ynnu utan heimilisins.

Langflestar íslenskar söngkonur voru í fullu starfi á daginn, sinntu auk þess heimilisstörfum auk söngsins. Fæstar entust lengi í söngnum og hættu um leið og tækifæri gafst. Elly hefði sennilega hætt alveg að syngja ef útgáfan hefði ekki krafist hæfileika hennar, en svo kom að því að hún dró sig alfarið úr sviðsljósinu í nær tuttugu ár og talaði helst ekki um feril sinn, ekki einu sinni við tvo yngstu syni sína, sem höfðu ekki hugmynd um að mamma þeirra væri ein þekktasta söngkona íslandssögunar: „Þegar lög hennar voru spiluð í útvarpinu á heimilinu, slökkti hún á tækinu.“

Þegar fyrirtæki heimilisins, SG hljómplötur urðu gjaldþrota, tók hún upp þráðinn þar sem frá var horfið fyrir tuttugu árum og hóf að syngja opinberlega að nýju. Ferill hennar náði samstundis flugi, en Elly staldraði því miður ekki lengi við. Hún greindist með krabbamein sem dró hana til dauða 16. nóvember árið 1995.

Elly Vilhjálms eða, Henný Eldey Vilhjálmsdóttir sem fæddist árið 1935 í Merkinesi við Hafnir, varð ekki nema 59 ára gömul.

Gjafakort fyrir öll tilefni

Gefðu viðburð að eigin vali

Kaupa gjafakort

Nýir viðburðir og tilboð fyrir þig í hverri viku

Skráðu þig á póstlistann

Skrá mig
Messenger