© 2025 Tix Miðasala
Kornhlaðan
•
23. febrúar
Miðaverð frá
7.990 kr.
Rómantíkin mun svífa yfir vötnum í Kornhlöðunni sunnudaginn 23. febrúar næstkomandi kl. 20 en söngvaskáldið víðfræga, Ólöf Arnalds, mun þá fagna Konudeginum og byrjun Góu með því að töfra fram seið af hjartnæmum ástarlögum úr eigin ranni, sem og eftir aðra höfunda sem gerir kvöldstundina tilvalda til að gera sér dagamun með ástinni sinni.
Ólöf Arnalds hóf feril sinn sem söngvaskáld með hljómplötunni Við og við, sem hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir. Á erlendri grundu var hún valin í hópi bestu platna ársins af Paste Magazine, auk þess sem eMusic valdi hana eina af bestu plötum fyrsta áratugarins. Fyrir aðra sólóplötu sína, Innundir skinni, hlaut Ólöf Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónsmiður ársins, auk þess sem platan var tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna. Þá hefur Ólöf gefið út plöturnar Sudden Elevation og Palme en báðar hlutu þær mikið lof gagnrýnenda víða um heim. Fimmta breiðskífa Ólafar er væntanleg í byrjun desember. Á farsælum ferli sínum hefur Ólöf einnig lagt stund á að túlka lög eftir aðra, m.a. á smáskífunni Ólöf Sings.
Ólöf hefur leikið á tónleikum víðsvegar um Evrópu, Bandaríkin og Ástralíu og komið fram í útvarpi og sjónvarpi. Fjöldi dagblaða, tímarita, vefmiðla, útvarps- og sjónvarpsstöðva víðsvegar um heim hafa fjallað um hana og verk hennar. Má þar nefna The New York Times, The Guardian, Vanity Fair, Paste, BBC, KEXP og Uncut.