© 2024 Tix Miðasala
Harpa
•
2. nóvember
Pierrot lunaire
Ragnheiður Ingunn kom fram sem syngjandi hljómsveitarstjóri á Óperudögum 2022 á tónleikunum „Hvað syngur í stjórnandanum?“ og var í kjölfarið valin „Bjartasta vonin í íslensku tónlistarlífi“ á Íslensku tónlistarverðlaununum. Nú snýr hún aftur sem söngkona og stjórnandi í verki Schönbergs, Pierrot lunaire, ásamt kvintett skipuðum Rannveigu Mörtu Sarc fiðluleikara, Steineyju Sigurðardóttur sellóleikara, Kristínu Ýri Jónsdóttur flautuleikara, Rúnari Óskarssyni klarinettleikara og Helgu Bryndísi Magnúsdóttur píanóleikara. Á tónleikunum verður ennfremur frumflutt stutt kammerverk Jóhanns G. Jóhannssonar við ljóð Þorvaldar Þorsteinssonar, Kall. Leikarinn Ingvar E. Sigurðsson bætist þá í hópinn sem ljóðmælandi.
Tónleikarnir fara fram í Norðurljósum 2. nóvember 2024 á Óperudögum.
„Pierrot lunaire“ er eitt af þekktustu verkum Arnolds Schönbergs, samið 1912 og tekur um 40 mínútur í flutningi. Verkið er samið við ljóðaflokk belgíska ljóðskáldsins Alberts Giraud í þýskri þýðingu eftir Hartleben, og skiptist eins og textinn í þrjá kafla, sem hver um sig er í sjö stuttum þáttum. Verkið verður nú flutt á íslensku í fyrsta sinn, í glænýrri þýðingu Jóhanns G. Jóhannssonar.
Í verkinu er ljóðið flutt af söngkonu sem iðulega þarf að feta vandrataða braut milli söngs og tals (‘sprechstimme’). Verkið gerir miklar kröfur til flytjendanna, fiðluleikarinn bregður fyrir sig víólu, flautuleikarinn pikkólóflautu og klarinettleikarinn bassaklarinetti.
Efnisskrá:
Hægt er að kaupa dagpassa á alla viðburði Óperudaga í Hörpu 2. nóvember, nánar hér