Sígildir sunnudagar: Kammermúsíkklúbburinn og píanókvartettar

Harpa

3. nóvember

Píanókvartettinn Negla, sem skipaður er fjórum ungum íslenskum tónlistarkonum, leikur þekkt meistaraverk eftir Mozart og Brahms á þriðju tónleikum Kammermúsíkklúbbsins, sunnudaginn 3. nóvember í Norðurljósum Hörpu kl. 16.

Meðlimir píanókvartettsins Neglu eru þær Sólveig Steinþórsdóttir sem leikur á fiðlu, Anna Elísabet Sigurðardóttir á víólu, sellóleikarinn Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir og Þóra Kristín Gunnarsdóttir sem leikur á píanó. Kvartettinn hefur starfað saman í tæp tvo ár og hefur á þeim tíma vakið athygli fyrir metnaðarfulla tónleika og flutning í hæsta gæðaflokki. Þótt ungar séu að árum hafa tónlistarkonurnar fjórar þegar skipað sér í fremstu röð íslenskra hljóðfæraleikara og eru allar virkar í tónlistarlífi landsins.

Tónleikarnir hefjast á ákaflega fallegum píanókvartetti Mozarts nr. 1 í g-moll. Þessi kvartett var saminn árið 1785 og sýnir óviðjafnanlega hæfileika Mozarts til að blanda saman depurð, dramatískum ákafa og ljóðrænni fegurð. Árið 1788 birtist grein í tímaritinu Journal des Luxus und der Moden þar sem fjallað var um píanókvartett Mozarts. Höfundi greinarinnar þótti verkið snúið, en markhópur kammertónsmíða voru einkum áhugahljóðfæraleikarar sem léku saman af blaði sér og öðrum til skemmtunar. Greinarhöfundur sagði verkið reyna til hins ýtrasta á slíka hljóðfæraleikara en bætti við að þótt verkið henti illa áhugamönnum sé hreinasta unun að hlýða á færa hljóðfæraleikara flytja það. Sú skoðun mun án nokkurs vafa sannast enn einu sinni á tónleikunum á sunnudaginn.

Eftir hlé verður leikinn píanókvartett nr. 1 eftir Johannes Brahms, sem er sömuleiðis í g-moll. Verkið sýnir djúpstæðan skilning tónskáldsins á formi, lagferli og tilfinningum og dregur hlustendur inn í grípandi frásögn sína frá fyrstu nótum. Árið 1862 settist Brahms að í Vínarborg, höfuðborg hins vestræna tónlistarheims, þá 29 ára gamall. Hann kynnti sig fyrir tónlistarelítu borgarinnar með píanókvartettinum í g-moll, sem var fyrstur þriggja píanókvartetta sem hann samdi um ævina. Meðlimir Hellmesberger-kvartettsins, eins fremsta kammerhóps Vínarborgar, lásu verkið með tónskáldinu við píanóið. Í lok verksins stökk fiðluleikarinn Joseph Hellmesberger upp úr stólnum og sagði ákaft: „Þetta er arftaki Beethovens!“ Kvartettinn er hvað þekktastur fyrir hrífandi lokakaflann, hið fræga Rondo alla Zingarese sem endurspeglar ævilanga hrifningu Brahms á ungverskri þjóðlagatónlist.

Kammermúsíkklúbburinn var stofnaður árið 1957 og hefur staðið fyrir reglulegu tónleikahaldi í Reykjavík allar götur síðan. Árgjald klúbbsins, sem veitir aðgang að öllum sex tónleikum vetrarins, er 19.000 kr. á hvern félaga. Eins og áður er klúbbfélögum boðið að taka unglinga úr fjölskyldum sínum með á tónleika klúbbsins fyrir aðeins 500 krónur á mann og miðar fást að einstökum tónleikum í miðasölu Hörpu á 4.900 kr. Hægt er að skrá sig í Kammermúsíkklúbbinn á vefsíðunni kammer.is.

Flytjendur: Píanókvartettinn Negla

Dagsetningar

Gjafakort fyrir öll tilefni

Gefðu viðburð að eigin vali

Kaupa gjafakort

Nýir viðburðir og tilboð fyrir þig í hverri viku

Skráðu þig á póstlistann

Skrá mig
Messenger