© 2024 Tix Miðasala
Harpa
•
8. október
Hvernig hljómar Esjan við undirleik ADHD? Mun Bríet flauta laglínuna í London út eða munu fimmmenningarnir leiða okkur í frjálsum spuna? Svörin við þessu fást á opnunartónleikum State of the Art í Norðurljósum 8. október kl. 20 þegar Bríet og ADHD spila saman í fyrsta skipti.
Tónleikar með hljómsveitinni ADHD eru oftast óvissuferð sem erfitt er að lýsa í orðum. Þeir fjórir sem skipa hljómsveitina mynda slíkan töfraseið með samspili sínu að erfitt er að dáleiðast ekki og fara með þeim í tónferðalag. ADHD samanstendur af Magnúsi T. Eliassen á trommur, Ómari Guðjónssyni á gítar, Óskari Guðjónssyni á saxófón og Tómasi Jónssyni á hljómborð. Sveitin hefur gefið út 8 plötur og spilað um víða veröld á þeim 17 árum sem hún hefur verið virk. Djassklúbbar Evrópu eru títt sóttir af sveitinni en tónlist sveitarinnar snertir á ýmsum stefnum. Hrærigrautur sá sem þeir bera á borð hefur mælst vel fyrir hjá tónlistarunnendum af ýmsum toga.
Bríet skaust upp á stjörnuhimininn þegar hún gaf út sína fyrstu plötu árið 2018 og festi sig svo rækilega í sessi með einni vinsælustu plötu Íslandssögunnar Kveðja, Bríet árið 2020. Söngkonan og lagahöfundurinn Bríet Ísis Elfar er fædd 1999 og er enginn eftirbátur ADHD þegar kemur að líflegri sviðsframkomu og eftirminnilegum tónleikum. Hún hefur skapað sér gott orð sem flytjandi í hæsta gæðaflokki og bera sérsmíðaðir turnar, voldugir búningar og töfrandi söngrödd hennar því vitni. Ýmsir meðlimir ADHD hafa leikið undir hjá Bríeti í gegnum tíðina en aldrei sem ein heild og eru því tónleikar Brítar og ADHD á hátíðinni fyrstir sinnar tegundar og einstakt tækifæri til þess að heyra þessi tvö náttúruöfl leiða saman hesta sína.