© 2024 Tix Miðasala
Sinfóníuhljómsveit Íslands
•
13. mars
Miðaverð frá
2.900 kr.
Sinfóníuhljómsveit Íslands
Juanjo Mena
hljómsveitarstjóri
Páll Palomares
einleikari
Louise Farrenc
Forleikur nr. 2
Édouard Lalo
Symphonie espagnole
„Spænska sinfónían“
Manuel de Falla
El sombrero de tres picos, svítur nr. 1 og 2
Einleikari þessara suðrænu og seiðandi tónleika er Páll Palomares, leiðari 2. fiðlu Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann er einn af fremstu fiðluleikurum landsins, hefur haldið fjölda tónleika og leikið einleik með sinfóníuhljómsveitum víðsvegar um Evrópu. Það er vel við hæfi að Páll leiki Symphonie espagnole þar sem hann er fæddur á Spáni og bjó þar í barnæsku. Páll hefur jafnframt mjög persónulega tengingu við verkið. Hann segir: „Þetta er allra fyrsta verkið sem ég spilaði sem einleikari, en ég spilaði fyrsta kaflann með Sinfóníuhljómsveit í Murcia á Spáni 11 ára gamall. Maður gleymir aldrei fyrstu einleikstónleikunum sínum.“ Verkið leyfir einleikaranum að leika listir sínar og er sérlega áheyrilegt og skemmtilegt.
El sombrero de tres picos, eða Þriggja horna hatturinn, eftir Manuel de Falla var upphaflega ballett sem frumsýndur var í Lundúnum 1919. De Falla umritaði verkið síðar í þær tvær grípandi svítur sem hljóma á þessum tónleikum, en þær byggja mikið til á spænskum dönsum. Tónleikarnir hefjast á Forleik nr. 2 eftir franska tónskáldið Louise Farrenc. Ólíkt mörgum samtímakonum hennar á fyrri hluta 19. aldar átti Farrenc farsælan tónlistarferil og var bæði eftirsóttur píanóleikari og tónskáld, auk þess að gegna prófessorsstöðu við Parísarkonservatoríið. Þótt hún gæfi sig að flestum tónsmíðaformum samdi hún aldrei óperu. Segja má að Forleikur nr. 2 komist þó næst því — hann gefur hinum vinsælu óperusmíðum 19. aldarinnar í Frakklandi ekkert eftir í krafti, hugmyndaauðgi og sköpunargleði.