© 2024 Tix Miðasala
Sinfóníuhljómsveit Íslands
•
14. nóvember
Sinfóníuhljómsveit Íslands
Sunwook Kim
hljómsveitarstjóri og einleikari
Fanny Mendelssohn
Forleikur í C-dúr
Wolfgang Amadeus Mozart
Píanókonsert nr. 21
Ludwig van Beethoven
Sinfónía nr. 4
Píanókonsertar Mozarts eru einstakir í tónlistarsögunni. Þeir eru meðal persónulegustu verka Mozarts og í þeim náði hann áður óþekktum hæðum í andagift, frumleika og hugmyndaauðgi. Um leið mótaði hann hugmyndir manna um hvað píanókonsertinn væri fær um, skapaði þá frummynd sem Beethoven og aðrir sem á eftir komu litu til þegar þeir reyndu sig við formið. Á þessum tónleikum hljómar einn dáðasti píanókonsert Mozarts, númer 21 í C-dúr. Sá konsert býr yfir einstakri heiðríkju og öðlaðist gífurlegar vinsældir seint á tuttugustu öld eftir að þokkafullur hægi kaflinn fékk að hljóma í sænsku kvikmyndinni Elviru Madigan árið 1967. Það er suður-kóreski píanóleikarinn Sunwook Kim sem leikur á píanóið en hann stjórnar auk þess hljómsveitinni sjálfur frá flyglinum, rétt eins og Mozart gerði þegar hann frumflutti verkið í Vínarborg 1785.
Sunwook Kim hefur fyrir löngu skipað sér sess sem einn af fremstu píanóleikurum sinnar kynslóðar, en hann sigraði hina virtu Alþjóðlegu píanókeppni í Leeds árið 2006 aðeins 18 ára gamall og var þar með yngsti sigurvegari hennar í 40 ár. Hann kemur reglulega fram með mörgum af fremstu sinfóníuhljómsveitum heims en leggur nú jöfnum höndum stund á píanóleik og hljómsveitarstjórn. Í mars 2023 kom hann í fyrsta sinn fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hreif þá tónleikagesti í Eldborg með sér í öðrum píanókonserti Brahms undir stjórn Bertrands de Billy. Fjórða sinfónía Beethovens hefur í gegnum tíðina staðið í skugga hinna átakameiri sinfónía sem standa hvor sínum megin við hana í röðinni — Hetjuhljómkviðunni og Örlagasinfóníunni.
Fjórða sinfónían er hins vegar geysisnjallt og hrífandi skemmtilegt verk. Hún er styttri og fíngerðari í forminu en systurverk hennar og horfir um margt aftur til Haydns, læriföður Beethovens, til að mynda með hinum sprellfjöruga og gamansama lokakafla. Verkið átti enda eftir að vekja aðdáun síðari tíma tónskálda á borð við Hector Berlioz, Felix Mendelssohn og Robert Schumann.
Þótt Fanny Mendelssohn hafi látið eftir sig um 500 tónverk um ævina voru fæst þeirra opinberlega flutt eða gefin út meðan hún lifði, þó eitt og eitt rataði ef til vill á prent undir nafni bróður hennar. Tónleikarnir hefjast á eina verki hennar sem varðveitt er fyrir fullskipaða sinfóníuhljómsveit, hinum bjarta og glaðlega konsertforleik í C-dúr