© 2025 Tix Ticketing
Tjarnarbíó
•
1. - 12 April
Ticket prices from
ISK 9,000
Sæmundur fróði er ný ópera eftir Þórunni Guðmundsdóttur og er um frumflutning að ræða. Það er sviðslistahópurinn Animato sem stendur að uppfærslunni.
Verkið fjallar verkið um ævi Sæmundar fróða Sigfússonar (1056-1133) prests í Odda, sem var í hópi lærðustu Íslendinga sinnar tíðar. Fjölmargar sögur eru til af Sæmundi, ekki síst viðureign hans við Kölska en það eru þær sem óperan byggist á. Í þjóðsögunum birtist togstreitan milli góðs og ills, kímnin í sögunum kallast á við hættuna á eilífri glötun, og svo bætist við sá áhugaverði vinkill að Kölski getur brugðið sér í allra kvikinda líki. Ævi Sæmundar er því tilvalinn efniviður í óperu,
Form verksins byggir á þeirri grunnhugmynd að dauðasyndirnar séu sjö, þannig að Sæmundur glímir við Kölska og sinn eigin breyskleika í sjö senum. Óperan hefst á erindum úr Sólarljóðum, þar sem sú spurning leitar á Sæmund hvort hann hafi varið lífi sínu til góðs. Til að leita svara við því hverfum við aftur til síðasta dagsins í Svartaskóla árið 1084 og fylgjumst síðan með lífshlaupi Sæmundar fram að dauðastundu hans.
Aðalhlutverkið, Sæmundur, er í höndum Hafsteins Þórólfssonar. Kölski kemur fram í mörgum senum, en hann birtist sem karl - Gunnlaugur Bjarnason, kona – Björk Níelsdóttir og barn – Halldóra Ósk Helgadóttir. Aðrar helstu persónur eru Guðrún kona Sæmundar, Þóra vinnukona sem lætur glepjast af púkum, tveir ungir synir Sæmundar og þrír púkar.
Meðleikur er í höndum 10 manna kammersveitar sem Sólveig Sigurðardóttir stjórnar. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir og hönnuður búninga og leikmyndar er Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir.