© 2025 Tix Ticketing
IÐNÓ
•
5 June
Ticket prices from
ISK 5,900
Fjórfaldir Útgáfutónleikar
Pan Thorarensen - Ljóstillífun
Ljóstillífun er heiti á nýjasta verkefni tónlistarmannsins og hljóðlistamannsins Pan Thorarensen. Verkið er fjölþætt tónlistar- og hljóðrýmisútgáfa sem spannar mörk raftónlistar, náttúruhljóðs, hugleiðslulistar og tilraunakenndrar hljóðsköpunar. Verkefnið byggir á djúpri tengingu við náttúru Íslands og þá sérstaklega flóru landsins, kyrrðina og þann dulúðuga kraft sem býr í íslensku landslagi. Titill verksins, Ljóstillífun, vísar til hins ósýnilega og lífsgefandi ferlis sem á sér stað í náttúrunni – táknmynd um sköpun, umbreytingu og lífskraft. Við gerð verksins nýtti Pan sér náttúruleg hljóð sem hann safnaði með sérhæfðum hljóðnemum út um allt land. Þessar hljóðupptökur – vindur í lyngmó, dropi á laufblaði, dynur í hrauninu – eru grunneiningar í verkinu. Þær eru ekki eingöngu notaðar sem bakgrunnshljóð heldur eru þær fléttaðar inn í sjálfa tónlistina og umbreyttar með rafrænni hljóðhönnun, hljóðgervlum, modularkerfum og handgerðum rafhljóðfærum. Útkoman er einstakur hljóðheimur sem dregur hlustandann inn í íhugult og hugleiðslukennt ferðalag um lífríki Íslands. Tónlistin er hönnuð til að skapa innri ró og dýpri tengingu við náttúruupplifun. Hver laglína og hljóðbrot hefur tilgang – að opna rými þar sem hlustandinn sekkur inn í innri heim, umvafinn kyrrð, íslenskri náttúrufegurð og endurnærandi stillu. Pan lítur á verk sitt sem andlega hljóðvist sem stuðlar að sjálfsskoðun, tengingu við náttúru og skapandi íhugun.
Hekla - Turnar
Turnar er þriðja breiðskífa Heklu þar sem hún snýr aftur með hinn magnþrungna hljóðheim þermínsins en platan er stór, marglaga og hljóðheimurinn bæði yfirnáttúrlegur, spennandi og drungalegur. Á plötunni bætir hún við sellói, rödd og kirkjuorgeli sem framkalla einstaka töfra, Platan var að hluta til tekin upp í (og nefnd eftir) miðalda kastalaturni í dreifbýli Frakklands og áhrifin leyna sér ekki eins og Hekla segir sjálf „þeramínið opnar eins konar gátt inn í nýtt ríki sem bæði horfir inn í myrkan gamlan heim og til framtíðar.” Turnar er virkilega áhrifarík platan sem er til skiptis undursamlega fallegt og ógnvekjandi ferðalag inn í undraheima en Hekla er einstaklega fær þeramínleikari og þetta leyndardómsfulla rafhljóðfæri er algjörlega einstakt. Það er fámennur hópur tónlistarmanna sem hefur náð jafn undraverðum tökum og Hekla á dulrænum leyndardómum þeramínsins og leikur Heklu spannar gríðarlegt svið, allt frá hljóðum sem minna á skrítinn fuglasöng yfir í kraftmikla bassatóna og drunur.
Jóhannes Pálmason - Í formi úlfs
Í formi úlfs" er fyrsta platan af þremur sem er byggð á bókinni „A Little Girl Dreams of Taking the Veil“ eftir Max Ernst. Hann var þýskur myndlistamaður, ljóðskáld og einn af frumkvöðlum í hreyfingu dadaista og súrrealista. Notast var við myndefni og setningar úr bókinni og þær túlkaðar í tónlist. Tónlistin fékk að flæða frítt fram og fengu hljóðfæraleikarar opið rými til spuna. Til að ná fram ýmsum blæbrigðum í túlkun minni á textunum, sem ég lagði til grundvallar, þá leitaði ég uppi umhverfishljóð, svo sem rennandi vatn í náttúrunni, íshelli sem brotnar undan fæti og andrúmsloftið að næturlagi. Einnig vildi ég ná fram drungalegum og ævintýrilegum heimi, sem ber mikið á í myndlist Max Ernsts, meðal annars með því að blanda saman martraðarlegri tónlist og hvíslandi barnsröddum. Í formi úlfs er fyrsta verkið af þremur, innblásin af verkum súrrealista. Hin verkin verða Stund uglunnar og það þriðja Krákustígur. Þessi dýr, sem eru tákn fyrir einhverja ógn eða forspá, skjóta oft upp kolli í súrrealískum verkum og eiga sérlega vel heima í listum á okkar óvissu tímum.
Unfiled
Unfiled er tvíhöfða skepna þeirra Atla Bollasonar og Guðmundar Úlfarssonar. Þeir hófu samstarf árið 2019 með röð tilraunakenndra sjónleika í Mengi – nýyrði þeirra yfir það sem nefnist á ensku „audio-visual performance.“ Þeir voru að senda frá sér fyrstu breiðskífu sína, samnefnda sveitinni, sem er að mestu leyti samin í Lódz í Póllandi. Tónlistin og myndheimurinn sækir innblástur í sögu borgarinnar, sem breyttist á fáum áratugum frá smáþorpi í næststærstu borg Póllands. Frá falli Sovétríkjanna hefur íbúafjöldinn hins vegar dregist verulega saman og í dag er Lódz eins konar austur-evrópsk Detroit, full af yfirgefnum iðngörðum og íbúðarkjörnum sem fengu að grotna niður í áratugi. Draugar borgarinnar ganga aftur í depurð tónlistarinnar, yfirgengilegum hávaða og glymjandi málmkenndum töktum.
Það er 18 ára aldurstakmark á þennan viðburð