© 2025 Tix Ticketing
Hannesarholt
•
27 March
Ticket prices from
ISK 4,900
Kitty og Þórdís snúa aftur í Hannesarholt með fjöruga efnisskrá sónata fyrir selló og píanó frá fyrri hluta 20. aldar. Flutt verða sónötur eftir Sergei Prokofiev og Claude Debussy sem báðar einkennast af léttlleika, hljómrænum áhrifum frá dægurtónlst fyrri hluta 20. aldar og algjörs jafnræðis hljóðfæra.
Debussy skrifaði sónötu sína ásið 1915 og var fyrsta af sex sónötum sem hann hugðist semja sem afturhvarf frá gerð stórra hljómsveitasrverka til kammertónlistar og var innblásin af og skrifuð til heiðurs frönsku barokktónskáldanna Rameau og Couperin. Debussy, sem á þessum tíma var orðinn heilsuveill, skrifaði sónötuna í smábæ við sjávarsíðu Normandy og tileinkaði eiginkonu sinni, Emmu.
Verk Prokofievs var samið árið 1949 eftir að tónskádlið sá sellóleikarann Mistislav Rostropovich leika aðra sónötu Miaskovkys og var Prokofiev svo hrifinn að hann samdi sónötuna sína fyrir sellóleikarann. Ári síðar var tónskáldið sakað um formalisma og megnið af tónlist hans bönnuð í Sovétríkjunum. Sónatan var frumflutt af Rostrapovic og Sviatoslav Richter í maí árið 1950 og þurftu þeir að spila hana fyrir ráð tónskáldafélagsins til að fá úr því skorið hvort verkið þætti viðeigandi og í anda stefnu Sovétríkjanna. Miaskovsky var viðstaddur frumflutninginn og lýsti verkinu sem undraverðu tónverki.
Kitty Kovács er fædd í Gyor í Ungverjalandi árið 1980 og útskrifaðist árið 2003 frá tónlistardeild Széchenyi István háskólans þar í borg með diplómu í píanó- og kammertónlist. Eftir útskriftina starfaði hún sem undirleikari í Gyor og lagði síðan stund á undirleikaranám við Ferenc Liszt Akademíuna í Búdapest. Á námsárum sínum vann hún í píanókeppnum, m.a. árið 1997 í Salt Lake City og árið 2000 varð hún í 3. sæti í Chopin keppninni. Kitty kom til Íslands árið 2006 og hefur starfað sem píanókennari og organisti. Frá árinu 2011 hefur hún verið kirkjuorganisti við Landakirkju í Vestmannaeyjum og kennari við Tónlistarskóla Vestmannaeyja. Frá árinu 2012 hefur Kitty stundað orgelnám við Tónskóla þjóðkirkjunnar og vorið 2017 lauk hún kantorsnámi þaðan.
Þórdís Gerður Jónsdóttir er sellóleikari sem hefur þá sérstöðu að leika jöfnum höndum sígilda tónlist og jazz. Sígildan sellóleik nam hún við Listaháskóla Íslands á árunum 2014-2017 og í konunglega danska konservatoríinu í Árósum, en þaðan lauk hún meistaragráðu sumarið 2021. Þórdís lauk burtfararprófi frá jazzdeild Tónlistarskóla FÍH vorið 2015 en í náminu lagði hún áherslu á spuna og tónsmíðar. Þórdís er stofnmeðlimur kammerhópsins Cauda Collective sem er hópur skapandi tónlistarflytjenda sem leita út fyrir rammann í tónlistarflutningi sínum. Hlutverki flytjandans er ögrað, hann semur líka tónlist, útsetur, spinnur og vinnur þvert á miðla. Hópurinn leitar einnig nýrra leiða til að túlka gamla tónlist í samtali við nútímann, gjarnan með hjálp annarra listforma. Einnig er unnið náið með tónskáldum og lögð áhersla á að frumflytja ný tónverk. Þórdís hefur leikið reglulega með Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 2018, hún var fastráðin þar veturinn 2021-2022, og hefur verið í leikhúshljómsveitum við Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið. Hún gaf út hljómplötuna Vistir með hennar eigin jazz-tónsmíðum og útsetningum vorið 2021. Síðustu misseri hefur Þórdís hefur lagt sérstaka áherslu á að frumflytja á Íslandi sjaldheyrð eldri erlend verk, sem dæmi frumflutti hún á Íslandi 100 ára sónötu fyrir selló og píanó eftir Kurt Weill, ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur, á Jazzhátíð Reykjavíkur í ágúst 2020. Þá frumflutti hún á Íslandi þrjár einleikssvítur eftir Ernst Bloch í maí 2023. Þórdís hefur einnig brennandi áhuga á miðlun menningar og hefur m.a. gefið út eigið hlaðvarp um þýska tónskáldið Kurt Weill. Þórdís er eftirsóttur útsetjari og hefur m.a. útsett tónlist Mugisonar, bæði fyrir tónleika og upptökur, auk sönglaga Kurts Weills fyrir 7 manna jazzhljómmsveit. Vorið 2014 lauk Þórdís námi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og viðbótardiplómu í lýðheilsuvísindum vorið 2019. Hún starfar á Bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins á milli tónleika.