© 2025 Tix Ticketing
Hannesarholt
•
14 February
Ticket prices from
ISK 4,900
Hver stund með þér
Heimildarmyndin Hver stund með þér - ástarljóð afa til ömmu verður sýnd í Hannesarholti á Valentínusardaginn föstudaginn 14. febrúar kl 20. Strax á eftir bíósýningunni verða litlir tónleikar þar sem Anna María Björnsdóttir ætlar að frumflytja nokkur ný lög, samin við ljóð afa síns.
Anna Mari´a gaf út plötuna Hver stund með þér árið 2015 en þar samdi hún tónlist við ástarljóðin sem afi hennar Ólafur Björn Guðmundsson orti til ömmu hennar Elínar Maríusdóttur. Heimildarmyndin og platan Hver stund með þér eru því nátengd.
“Afi Óli orti ástarljóð til ömmu Ellu reglulega yfir þeirra ævi saman en enginn fékk að sjá þessi ljóð fyrr en þau voru orðin gömul. Ég samdi svo tónlistina eftir að þau bæði voru fallin frá. Afi hafði líka tekið upp töluvert af þöglum myndum og var því töluvert til af myndefni af lífi þeirra og ferðalögum um Ísland sem við notuðum í heimildarmyndinni. Myndin fjallar um ömmu og afa, ástarljóðin, tónlistina, ástina og hjónabandið en í henni er líka einstakt myndefni af íslenskri náttúru og ferðalögum ömmu og afa um Ísland.
Ljóðin voru samin við hin ýmsu tilefni en amma og afi voru gift í yfir 60 ár og fjalla þau öll um ást þeirra hvort á öðru. Það telst óvenjulegt að svo mörg ástarljóð séu samin til sömu manneskjunnar yfir heila ævi. Sú saga sem þau segja á sér vart hliðstæðu en sýnir jafnframt hvernig ást þeirra þróaðist yfir langan tíma.
Heimildarmyndin Hver stund með þér var frumsýnd á RIFF 2015. Hún var svo sýnd á RÚV og í Sjónvarpi Símans árið 2020.
Leikstjóri að heimildarmyndinni er Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir og klippari er Ólafur Már Björnsson.
Anna María ætlar að spila og syngja ein á þessum tónleikum en Jesper Pedersen mun einnig spila nokkur lög með henni.
Það er tilvalið að fá smá rómantík og sumar í hjartað á Valentínusardaginn og skella sér á tónleikana í Hannesarholti.