© 2025 Tix Ticketing
Harpa
•
17 March
Ticket prices from
ISK 3,500
On this Island - Írsk og íslensk sönglög
Dúó Áróra ásamt sópransöngkonunni Ami Hewitt flytja í heild sinni ljóðaflokk Benjamins Britten, On this Island, ásamt íslenskum og írskum sönglögum á borð við Gígjuna eftir Sigfús Einarsson og írska þjóðlagið Danny Boy.
On this Island hefur ekki oft verið fluttur hérlendis. Textinn er eftir W.H. Auden og kom upphaflega út í ljóðabók hans Look, Stranger! en var svo endurútgefinn undir titlinum On this Island. Töluvert hefur verið deilt um hvaða eyju flokkurinn fjallar. Isle of Wight segja sumir, Isle of Man aðrir. Bretland sjálft vilja enn aðrir meina og telja sig þekkja skírskotanir til hvítra kletta Dovers í fyrsta ljóði flokksins. En ljóðin gætu í raun átt við hvaða eyju sem er. Myndirnar sem dregnar eru upp eru af hrjóstrugri náttúru umkringdri ísköldu hafi. Litlum samfélögum þar sem allir vita allt um alla. Skemmtilegt er að geta þess að upphaflegur titill ljóðaflokksins, Look, Stranger!, er tilkominn vegna þess að útgáfufyrirtæki Audens náði ekki sambandi við Auden þegar bókin var á leið í prentun. Ekki gafst færi til að bera titilinn undir hann því hann var á ferðalagi um hina afskekktu eyju Ísland.
Flytjendur:
Anna Þórhildur Gunnarsdóttir, píanisti, og Solveig Óskarsdóttir, sópran, kynntust við nám í Listaháskóla Íslands. Þaðan útskrifaðist Anna Þórhildur með B.Mus. í píanóleik og Solveig með B.Mus. í klassískum söng. Eftir nám í Listaháskólanum héldu þær báðar erlendis í nám. Anna Þórhildur til Maastricht í Hollandi og Solveig fyrst í Kungliga Musikhögskolan í Stokkhólmi og svo til Maastricht. Í Maastricht stofnuðu þær ljóðadúóið Áróru sem sérhæfir sig í flutningi samtímatónlistar, með áherslu á verk eftir konur. Dúóið var stofnað í tengslum við Night of Classical Music, tónlistarhátíð á vegum Conservatorium Maastricht. Þær hafa síðan haldið áfram samstarfinu, bæði sem Dúó Áróra og sem partur af stærri kammerhópum. Þær hafa hlotið ýmsa styrki fyrir tónleikahaldi hérlendis og m.a. haldið tónleika í Hannesarholti, Ráðhúsi Reykjavíkur, Stykkishólmskirkju og Borgarneskirkju svo eitthvað sé nefnt.
Ami Hewitt er írsk sópransöngkona frá Dublin. Hún lærði fyrst við Trinity College í Dublin og hélt svo í meistaranám við Conservatorium Maastricht, þar sem leiðir þeirra Önnu og Solveigar lágu saman. Meðal hlutverka sem hún hefur sungið er Elvira úr L’Italiana in Algeri eftir Rossini og Lauretta úr Gianni Schicchi eftir Puccini í uppfærslum Wexford Festival Opera, og Sophie úr Werther eftir Massenet í uppfærslu Lyric Opera Ireland. Ami var meðlimur í óperustúdíói Ireland National Opera og í Young Artist prógrammi við Wexford Festival Opera. Hún var einnig meðlimur í Young Singer’s Collective við Le Foyer des Artistes. Um þessar mundir er hún á tónleikaferðalagi um Frakkland og Ítalíu með Opera for Peace.