© 2024 Tix Ticketing
Salurinn
•
21 February
Ticket prices from
ISK 7,500
Þessir tónleikar eru í hinni árlegu tónleikaröð, ”Gítarveisla Björns Thoroddsen” og verður þetta í 21. skiptið sem hátíðin er haldin. Sérstakur gestur verður sænski stórgítarleikarinn Janne Schaffer og auk hans verður með í för, samlandi hans, píanóleikarinn og söngvarinn Jonas Gideon.
Gitarleikararnir Björn Thoroddsen og Janne Schaffer leika á tónleikum í Salnum í Kópavogi föstudaginn 21.febrúar 2025 og með þeim verða Jón Rafnsson, bassaleikari, Sigfús Örn Óttarsson, trommuleikari og sænski píanóleikarinn og söngvarinn Jonas Gideon, en hann hefur starfað mikið með Janne Schaffer undanfarin ár og nú sem stendur eru þeir félagar á tónleikaferðalagi um Svíþjóð og leika þar þá tónlist sem Janne hefur sýslað með síðastliðin 50 ár. Sú tónleikaröð nefnist „My Music Story“.
Dagskrá tónleikanna í Salnum mun samanstanda af tónlist eftir Janne Schaffer, - fusion-kennd gítartónlist sem einnig hefur yfir sér skemmtilegan sænskan þjóðlegan blæ og eflaust fær eitthvað ABBA-lag að fljóta með, en hann lék með ABBA nær allan þeirra starfsferil. Tónlist Björns Thoroddsen fær sinn sess, bæði hans frumsamda tónlist og íslensk þjóðlög, en Björn er stofnandi tríósins Guitar Islancio, sem er þekkt fyrir sínar útsetningar á íslenskum þjóðlögum og eitthvað af þeim lögum verða væntanlega á dagskránni í nýjum útsetningum þeirra félaga.
Hin árlega gítarveisla Björns Thoroddsen er fyrir löngu orðin viðburður sem margir bíða eftir. Í gegn um árin hafa margir heimsþekktir tónlistarmenn komið fram á hátíðinni með Birni og má þar nefna nöfn eins og Tommy Emmanuel, Al Di Meola, Philip Catherine, Larry Coryell, Ulf Wakenius, Robin Nolan, Kazumi Watanabe, Robben Ford, Leni Stern og Mike Stern að ógleymdum öllum íslensku gítarleikurunum; Þorsteinn Magnússon, Ólafur Gaukur, Jón Páll Bjarnason, Björgvin Gíslason, Halldór Bragason, Þóður Árnason, Gunnar Þórðarson, Tryggvi Hübner, Vilhjálmur Guðjónsson, Óskar Logi Ágústsson, Hjörtur Stephensen og fleiri.