Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Barokkbandið Brák er skipað hópi fólks sem hefur sérhæft sig að hluta í upprunaflutningi í námi erlendis og vill nýta þessa þekkingu sína til tónleikahalds og verkefna á Íslandi.
Sveitin hefur upp á síðkastið fengið til liðs við sig jafnt íslenska og erlenda hljóðfæraleikara, söngvara og dansara til að glæða nýju lífi í tónlist barokk og endurreisnartímans.
Hefur Brák hlotið mikið lof hvarvetna á síðustu misserum. Þá hafa þónokkrir tónleikar bandsins verið hljóðritaðir og útvarpaðir af Ríkisútvarpinu og hafa gagnrýnendur Morgunblaðsins og Fréttablaðsins lofað Brák fyrir líflegt og vandað tónleikahald og gefið tónleikum hópsins fjórar og fjórar og hálfa stjörnu í dómum sínum. Barokkbandið Brák hefur í tvígang verið tilnefnt til Íslensku Tónlistarverðlaunanna sem Tónlistarflytjandi Ársins 2017 og 2018 en bandið fékk einnig tilnefningu fyrir Tónlistarviðburð Ársins 2018. 

Franskar aríur og hirðtónlist
Barokkbandið Brák ásamt söngvaranum Andra Birni Róbertssyni töfra fram franska veisludagskrá. Á þessum tónleikum hljóma sérvaldar bravúr aríur í bland við tignarlega danstónlist franska barokktímans. Dagskráin leikur á allan tilfinningaskalann allt frá dansandi gleði til rífandi harmleiks sem gætu jafnvel lokkað fram eitt til tvö tár. Hljómsveitin leikur með sinni alkunnu snerpu og eldmóði og ætti því ekki að láta neinn eftir ósnortinn.

Andri Björn bassa-barítón hefur vakið athygli með ómþýðri bassa/baritón rödd sinni og er söngferill hans á hraðri uppleið þrátt fyrir ungan aldur. Andri þreytti nýverið frumraun sína á sviði Royal Opera House, Covent Garden í London í heimsfrumsýningu nýrrar óperu eftir Sir George Benjamin, Lessons in Love and Violence og síðar í Amsterdam, Hamborg og Lyon. Hann hefur farið með fjölda hlutverka í óperuhúsum á borð við English National Opera og Óperuhúsið í Zürich svo eitthvað sé nefnt. Andri hefur einnig unnið fjölda verðlauna fyrir söng sinn og þess má til gamans geta að hann mun fara með hlutverk Fígarós í uppfærslu Íslensku Óperunnar á Brúðkaupi Fígarós nú haustið 2019.