Dimitri Þór og Sibelius – Sinfóníuhljómsveit Íslands
Joseph Bologne: Sinfónía í D-dúr
Jean Françaix:
Klarínettkonsert
Jean Sibelius:
Lemminkäinen-svíta
Eva Ollikainen
hljómsveitarstjóri
Dimitri Þór Ashkenazy
einleikari
Tónleikakynning » 18:00
„Ég hef sjaldan heyrt eins vel spilað á klarínettu,“ sagði gagnrýnandi Morgunblaðsins um tónleika Dimitris Ashkenazy á Íslandi fyrir rúmum áratug. Nú snýr hann aftur til Íslands og leikur sjaldheyrðan konsert eftir franska tónskáldið Jean Françaix, sem kunnur er fyrir leikandi létta og skemmtilega tónlist. Dimitri ólst upp á Íslandi til níu ára aldurs og hefur leikið með sinfóníuhljómsveitum og í heimsfrægum tónleikasölum víða um heim, meðal annars á Proms-tónlistarhátíðinni í Royal Albert Hall.
Joseph Bologne átti einhverja ævintýralegustu ævi sem sögur fara af í klassískri tónlist. Hann var fæddur á eyjunni Guadeloupe í Karíbahafi, sonur landeiganda og konu sem var þræll eiginkonu hans. Faðirinn tók hann með sér til Parísar þar sem Joseph hlaut fyrirtaks menntun og varð vinsælt tónskáld og hljómsveitarstjóri; Marie Antoinette var meðal þeirra sem dáðust að tónlist hans. Í dag er hans minnst sem fyrsta klassíska tónskáldsins af afrískum uppruna. Tónlist hans er leikandi létt, í ætt við Haydn og Mozart, og upptaktur að tónleikunum er fjörug sinfónía frá árinu 1780.
Lemminkäinen-svítan er lykilverk á ferli Sibeliusar, glæsilegt hljómsveitarverk sem raunar átti upphaflega að verða ópera. Efniviðinn sækir tónskáldið í kvæðabálkinn Kalevala eins og hann átti vanda til. Hinn ungi Lemminkäinen er ein af hetjum bálksins. Léttlyndur og andvaralaus lendir hann stöðugt í vandræðum en losnar úr þeim aftur vegna galdrakunnáttu sinnar og móður sinnar. Meðal þátta svítunnar er tónaljóðið Svanurinn frá Tuonela, sem margir telja meðal þess fegursta sem Sibelius samdi.
Stjórnandinn, Eva Ollikainen, hefur vakið mikla athygli á undanförnum árum og er meðal annars fastagestur hjá hljómsveitum í Finnlandi og Danmörku. Hún kemur nú til Íslands í fimmta sinn og aðdáendur hennar hér vita að búast má við góðum tónleikum þegar hún stendur í brúnni.