Vladimir Ashkenazy var aðalhvatamaður að stofnun Listahátíðar í Reykjavík árið 1970 og stjórnar nú tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á hátíðinni eftir 37 ára hlé. Í millitíðinni hefur hann stjórnað öllum helstu hljómsveitum heimsbyggðarinnar og skráð nafn sitt í tónlistarsöguna sem hljómsveitarstjóri og píanóvirtúós.
Í fylgd með honum er franski verðlaunapíanistinn Jean-Efflam Bavouzet, sem þykir einn fremsti túlkandi franskrar píanótónlistar í heiminum í dag. Diskar hans með tónlist eftir Ravel og Debussy hafa hlotið tvenn Gramophone-verðlaun, BBC Music Magazine verðlaunin auk fjölda annarra viðurkenninga. Hann kemur reglulega fram með helstu hljómsveitum heims og þeir Ashkenazy eiga saman langt samstarf á tónleikapallinum. Bavouzet leikur einmitt frægasta píanókonsert franskrar tónlistar, léttan og leikandi konsert Ravels.
Túlkun Vladimirs Ashkenazy á 9. sinfóníu Beethovens á opnunartónleikum Hörpu 4. maí árið 2011 er öllum sem á hlýddu ógleymanlegur. Á þessum tónleikum stjórnar hann myndrænustu sinfóníu meistarans, Sveitasinfóníunni sem er full af saklausri glaðværð, náttúruhljóðum, lækjarnið og fuglasöngi, en einnig stormviðri sem þó styttir upp um síðir.
Sagan um Rómeó og Júlíu, frægasta ástarsaga allra tíma, varð hinum unga Tsjajkovskíj að yrkisefni í fantasíuforleiknum þar sem tilfinningarskalinn er þaninn til hins ítrasta.
Til stóð að Vovka Stefán Ashkenazy léki einleik á tónleikunum en hann hefur boðið forföll.
EFNISSKRÁ
Pjotr Tsjajkovskíj
Rómeó og Júlía
Maurice Ravel
Píanókonsert í G-dúr
Ludwig van Beethoven
Sinfónía nr. 6, Sveitasinfónían