Daníel Bjarnason hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim á undanförnum árum fyrir tónsmíðar sínar og hljómsveitarstjórn. Nýtt hljómsveitarverk hans, Collider, dregur nafn sitt af stóra sterkeindahraðlinum í rannsóknamiðstöðinni CERN og var frumflutt af Sinfóníuhljómsveitinni í Cincinnati í mars síðastliðnum. Þar vakti það mikla hrifningu og einn gagnrýnandi kallaði það „heillandi ferðalag í tíma og rúmi“.
Sem tónskáld hefur Daníel unnið með nafntoguðum hljómsveitum á borð við fílharmóníuhljómsveitirnar í New York og Los Angeles, Ulster-hljómsveitina á Írlandi og skosku BBC-hljómsveitina. Þá hafa heimsþekktir hljómsveitarstjórar stjórnað verkum hans og nægir þar að nefna Gustavo Dudamel, James Conlon og John Adams.
Daníel Bjarnason er einn af mikilvirkustu tónlistarmönnum þjóðarinnar og margfaldur verðlaunahafi Íslensku tónlistarverðlaunanna. Hann er nú staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Tónskáldið og hljómsveitarstjórinn Pierre Boulez sagði eitt sinn að flauta skógapúkans hefði blásið nýju lífi tónlistina. Forleikur Debussys að Síðdegi skógarpúkans boðaði vissulega nýja tíma í tónlistarsögunni og er hann ásamt La mer meðal fegurstu, áhrifamestu og vinsælustu verka franska impressjónistans.
Með Lontano opnaði Györgi Ligeti nýjan hljóðheim sem heillaði m.a. Stanley Kubrick sem notaði tónlist Ligetis í nokkrum kvikmynda sinna, m.a. A Space Odyssey, Eyes Wide Shut og The Shining en í þeirri myndi heyrast einmitt brot úr Lontano.
Stórbarítónsöngvarinn Ólafur Kjartan söng sig inn í hjörtu tónleikagesta á tónleikum Sinfóníunnar undir stjórn Ashkenazys í fyrra þar sem hann túlkaði ljóðaflokkinn Söngvar og dansar dauðans eftir Músorgskíj og nú syngur hann ægifögur og sárljúf ljóð Mahlers með hljómsveitinni undir stjórn Daníels Bjarnasonar.
EFNISSKRÁ
Claude Debussy
Forleikur að Síðdegi skógarpúkans
György Ligeti
Lontano
Daníel Bjarnason
Collider
Gustav Mahler
Kindertotenlieder
Claude Debussy
La mer
STJÓRNANDI
Daníel Bjarnason
EINSÖNGVARI
Ólafur Kjartan Sigurðarson