Skip to content

Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Yndisfagur klarínettkonsert Mozarts var eitt hans síðasta verk, saminn fáeinum vikum áður en hann lést langt fyrir aldur fram. Um nálgun Mozarts sagði tónlistarfræðingurinn Alfred Einstein - frændi Alberts - að hann hefði „samið fyrir klarínett eins og hann væri fyrstur til að uppgötva þokka hljóðfærisins, mýkt, sætleika og fimi.“ Hér hljómar konsertinn í flutningi Arngunnar Árnadóttur sem tók við stöðu leiðandi klarínettleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2012. Arngunnur stundaði framhaldsnám við Hochschule für Musik „Hanns Eisler“ í Berlín og brautskráðist þaðan með hæstu einkunn. Arngunnur er einnig ljóðskáld og hefur hlotið mikla athygli fyrir störf sín á þeim vettvangi.

Schumann samdi Vorsinfóníu sína í bráðainnblæstri árið 1841, á aðeins fjórum dögum – og jafnmörgum nóttum. Hún er eitt hans dáðasta verk enda lífleg með eindæmum. Eldur Jórunnar Viðar er tímamótaverk – fyrsta hljómsveitarverk íslensks kventónskálds.

Þýski stjórnandinn Cornelius Meister er aðalstjórnandi Útvarpshljómsveitarinnar í Vínarborg og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir starf sitt þar. Hann hefur einnig stjórnað mörgum helstu hljómsveitum heims, til dæmis Concertgebouw-sveitinni í Amsterdam, og það er því mikið tilhlökkunarefni að fá hann í fyrsta sinn til Íslands með þessa spennandi efnisskrá í farteskinu.

EFNISSKRÁ
Jórunn Viðar
Eldur
W.A. Mozart
Klarínettkonsert
Robert Schumann
Sinfónía nr. 1, Vorsinfónían

STJÓRNANDI
Cornelius Meister

EFNISSKRÁ
Arngunnur Árnadóttir