Hljómsveitin Nýdönsk heldur áfram uppteknum hætti og blæs til árlegra hausttónleika í Hörpu. Boðið verður upp á tvenns konar tónleika þetta árið sem bera yfirskriftina "Skemmtilegustu lögin" og "Leiðinlegustu lögin" til að koma til móts við grjótharða aðdáendur og mýkri.
"Skemmtilegustu lögin" eru tónleikar sem innihalda vinsælustu lög sveitarinnar; þau lög sem útvarpsmenn og aðdáendur hafa spilað hvað mest og óskað oftast eftir að heyra á löngum ferli hljómsveitarinnar.
"Leiðinlegustu lögin" eru hinsvegar tónleikar þar sem lög sem sjaldan heyrast leikin; þykja of tormelt til útvarpsspilunar, heyrast ekki á tónleikum alla jafna eða eru hugsanlega orðin óþolandi eftir öll þessi ár sem Nýdönsk hefur staðið í eldlínunni.
Í tilefni tónleikanna og til að fylgja fast eftir velgengni hljómplötunnar Diskó Berlín og frábærum tónleikum í Eldborg á síðasta ári hefur hljómsveitin Nýdönsk sent frá sér lagið Heimsins stærsta tár sem má heyra hér
Hljómsveitina skipa sem fyrr Björn Jörundur, Daníel Ágúst, Jón Ólafs, Ólafur Hólm og Stefán Hjörleifsson. Að vanda má gera ráð fyrir óvæntum uppákomum.
Áhugasamir geta fylgst með Nýdönsk og undirbúningi tónleikanna á Facebook