Vox feminae: Hörpur og strengir
Kvennakórinn Vox feminae heldur nú tónleikana Hörpur og strengir. Flytur kórinn klassísk evrópsk og íslensk verk frá 17. öld fram til okkar tíma eftir Bach, Brahms, Grieg, Gjeilo, Hildigunni Rúnarsdóttur, Tryggva M. Baldvinsson o.fl. Flytjendur, auk kórs, eru strengjasveit, harpa og píanó.
Kvennakórinn Vox feminae var stofnaður árið 1993 af Margréti J. Pálmadóttur og hefur trúarleg tónlist ásamt íslenskum þjóðlögum og sönglögum einkennt lagaval kórsins.
Kórinn hefur einnig lagt rækt við samtímatónlist eftir íslensk tónskáld og má þar nefna Messu Báru Grímsdóttur, sem frumflutt var á Myrkum músíkdögum árið 2013 og Stabat Mater eftir John A. Speight sem flutt var árið 2008.
Vox feminae hefur lagt ríka áherslu á að kynna íslenska kvennakóratónlist með tónleikahaldi og útgáfu þriggja geisladiska, Mamma geymir gullin þín, með íslenskum þjóðlögum og Himnadrottning og Ave Maria með trúarlegum verkum.
Kórinn hefur farið í tónleikaferðir til útlanda og vann til silfurverðlauna í alþjóðlegri kórakeppni haldinni af Vatíkaninu í Róm árið 2000. Auk sjálfstæðs tónleikahalds hefur Vox feminae komið fram við margvísleg tækifæri á Íslandi og má þar nefna söng með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Plánetunum eftir Gustav Holst og í 3. sinfóníu Mahlers.