Skip to content

Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Strokkvartettinn Siggi hefur starfað saman frá árinu 2012 en til hans var stofnað af ástríðu við það verkefni að spila strengjakvartett.

Við erum öll meðlimir í Sinfóníuhljómsveit Íslands og nátengd tónlistarlífinu á mörgum sviðum. Við höfum flutt verk eftir Haydn, Beethoven, Prokofieff og Schostakovich ásamt því að frumflytja íslenska strengjakvartetta (Haukur Tómasson, Atli Heimir Sveinsson, Una Sveinbjarnardóttir). Einnig höfum við frumflutt á Íslandi erlenda kvartetta á borð við Scelsi og Naomi Pinnock að ótöldum kvartettum ungra norrænna tónskálda. Okkar markmi á þessu starfsári er að halda áfram á þeirri braut að snerta á öllum víddum strengjakvartettformsins - fersk nýsköpun stendur hjarta okkar næst ásamt því að nostra við kvartetta Beethovens.

Við erum í samstarfi við Errata hópinn en þau eru öll með nýja kvartetta sem við hyggjumst flytja á þessu starfsári. Hópurinn samanstendur af ungum tónskáldunum Hauki Þór Harðarsyni, Halldóri Smárasyni, Báru Gísladóttur, Finni Karlssyni og Petter Ekman sem eru öll að fást við mjög spennandi hluti, saman og sitt í hvoru lagi. Á tónleikum þann 27.nóvember verða fluttir kvartettar eftir Finn Karlsson og Hauk Þór Harðarson. Til móts við þessa splunkunýju tónlist munum við tefla fram meistara fúgunnar J.S.Bach og strengjakvartett nr.1 eftir Penderecki ásamt því að frumflytja strengjakvartett nr.3 eftir Atla Heimi Sveinsson. Það ætti engin að verða svikin af slíkum aðventutónleikum.

Tónleikaárið 2016-2017 fer af stað ný tónleikaröð í Hörpu, svokallaðir Sígildir sunnudagar.

Sígildir sunnudagar eru regnhlífarhugtak yfir klassískar tónleikaraðir og staka viðburði í Norðurljósum, Kaldalóni og opnum rýmum á sunnudögum í vetur kl 17:00. Með röðinni gefst áheyrendum kostur á fyrsta flokks kammertónleikum í Hörpu vikulega.

Lögð er áhersla á fjölbreytt úrval tónleika með sígildri söng- og hljóðfæratónlist. Meðal þátttakenda í röðinni eru tvö flaggskip íslenskrar tónlistar á klassíska sviðinu, Kammersveit Reykjavíkur og Kammermúsíkklúbburinn, en auk þeirra koma fram Strokkvartettinn Siggi, Kammerhópurinn Elektra, Ljóðasöngsröð Gerrit Schuil og Barokksveitin Brák, ásamt fleirum. Auk þess verður ferður sett á stokk ný tónleikaröð ungra tónlistarmanna í samstarfi við FÍT og FÍH, Velkomin heim. Með henni er ungt tónlistarfólk sem nýlokið hefur námi hvatt til dáða. Sígildir sunnudagar eru metnaðarfullt átak sem vert er að fylgjast með.