Kvartett Einars Scheving heldur útgáfutónleika laugardaginn 24. október kl. 21 í Norðurljósum, Hörpu í tilefni af útkomu plötunnar Intervals. Kvartettinn skipa auk Einars, sem leikur á trommur og slagverk, píanóleikarinn Eyþór Gunnarsson, saxafónleikarinn Óskar Guðjónsson og bassaleikarinn Skúli Sverrisson. Munu þeir leika efni af Intervals, sem kemur út 15. október, auk þess að leika í bland efni af plötunum Cycles og Land míns föður, en Einar hlaut íslensku tónlistarverðlaunin fyrir þær báðar. Þetta er í fyrsta sinn sem kvartettinn kemur saman fullskipaður utan hljóðvers.
„Þetta er ein magnaðasta og fallegasta plata sem ég hef heyrt. Draumkennd og töfrum líkust. Hæstu meðmæli.“ ***** Dave Sumner, allaboutjazz.com
„Ein fallegasta plata sem út hefur komið á Norðurlöndum í seinni tíð; plata sem fangar sál [Íslands].“ ***** Jan Gradwall, Dagens Industri, Svíþjóð
„ekkert minna en besta kynning á tónlist og menningu Íslands sem þú gætir óskað þér eða jafnvel ímyndað þér.“ ***** IJ.Biermann, nordische-musik.de
„Á þessari skífu er enginn tónn án tilgangs...Þetta er tær list og það þarf ekki að smella fingri þegar hlustað er, heldur hverfa inní þá draumaveröld þarsem fegurðin ríkir ein, sökkva sér í einsemd í tónaveröld sem auðgar jafnt sem göfgar.“ ***** Vernharður Linnet, Morgunblaðið
„Einar fær alveg hæstu einkunn, þetta er ein af plötum ársins, alveg klárlega.“ ***** Arnar Eggert Thoroddsen, mbl.is