Sandra Lind Þorsteinsdóttir kemur fram í tónleikaröðinni Velkomin heim sunnudaginn 20. júlí klukkan 16. Tónleikaröðin er á vegum FÍT og FÍH í samstarfi við Hörpu.
Tónleikarnir fara framí Hörpuhorni, á annarri hæð Hörpu. Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin.
---
Sandra Lind Þorsteinsdóttir lauk meistaragráðu í söng frá Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn árið 2021, þar sem söngkennari hennar var Hanna Birgitte Hjort. Hún lauk bakkalárgráðu í söng frá Listaháskóla Íslands árið 2019 undir leiðsögn Þóru Einarsdóttur, Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur, Hönnu Dóru Sturludóttur og Kristins Sigmundssonar. Hún er nú við það að ljúka einsöngvaranámi (e. Advanced Postgraduate Diploma) frá Syddansk Musikkonservatorium, undir leiðsögn Henriette Bonde-Hansen og mun halda útskriftartónleika sína frá þeim skóla í september 2025.Sandra var valin sem einn af sigurvegurum sólistakeppni Syddansk Musikkonservatorium árið 2023. Hún hefur komið fram sem einsöngvari í verkum á borð við Stabat Mater eftir Pergolesi, Det Hellige Land eftir Otto Malling, sem Pamina/Papagena í Töfraflautunni með Det Lille Operakompagni og í fjölda verkefna með Det Flyvende Teater. Sandra er meðlimur í ELECTRIO, óhefðbundnu tríói sem blandar saman söng, gítar og raftónlist og hefur tríóið haldið tónleika bæði á Íslandi og í Danmörku, síðast í Hörpu í tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar. Sandra hefur komið fram sem kórsöngvari í fjölda verkefna með DR KoncertKoret (Kór Danska Ríkisútvarpsins) og starfar hún einnig sem kirkjusöngvari.
Píanóleikari á tónleikunum er Anna Þórhildur Gunnarsdóttir.