Sólveig Steinþórsdóttir fiðluleikari kemur fram í tónleikaröðinni Velkomin heim sunnudaginn 13. júlí klukkan 16. Tónleikaröðin er á vegum FÍT og FÍH í samstarfi við Hörpu.
Á efnisskrá eru verk fyrir fiðlu eftir Johann Sebastian Bach, Georg Philipp Telemann og Eugène Ysaÿe.
Tónleikarnir fara framí Hörpuhorni, á annarri hæð Hörpu. Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin.
--
Sólveig Steinþórsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1995 og hóf fiðlunám þriggja ára gömul við Allegro Suzukitónlistarskólann undir handleiðslu Lilju Hjaltadóttur og lærði síðar hjá Guðnýju Guðmundsdóttur við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún lauk bakkalárprófi frá Listaháskólanum í Berlín árið 2019 og meistaragráðu frá Listaháskólanum í Zürich árið 2021. Hún hefur leikið einleiks- og kammertónlist á Íslandi, Þýskalandi, Sviss og Ítalíu og komið fram á ýmsum hátíðum, þar á meðal Bodensee Festival, Festival alte Musik Zürich og Tónlistarhátíð unga fólksins, og á tónleikaröðum svo sem í Kammermúsíkklúbbnum í Hörpu, Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni og Tíbrá í Salnum í Kópavogi. Hún hefur einnig spilað sem barokkfiðluleikari með ýmsum hópum, t.d. Barokkbandinu Brák, Zürcher Barockorchester, Akademie für alte Musik Berlin og J. S. Bach Stiftung St. Gallen. Í júní 2023 gaf hollenska útgáfufyrirtækið Challenge Classics út upptöku á flutningi Sólveigar á fiðlusónötum Ysaÿe.