Á tónleikum Kvennakórsins Hrynjanda í Hörpuhorni sunnudaginn 25. maí kl. 15:00 verður flutt fjölbreytt efnisskrá með nýjum og eldri lögum eftir konur, bæði íslenskar og erlendar. Flutt verða meðal annars lög eftir Bergþóru Árnadóttur, Bríeti, Hjördísi Pétursdóttur, Ingibjörgu Azima og Ingibjörgu Þorbergs. Flest lögin á efnisskránni voru útsett sérstaklega fyrir kórinn af Bertu Dröfn Ómarsdóttur kórstjóra.
Hvar: Hörpuhorn
Hvenær: Sunnudag, 25. maí kl. 15:00 - 15:30
Kvennakórinn Hrynjandi er líflegur kór sem syngur eingöngu lög eftir konur. Á aðventunni hefur skapast skemmtileg hefð fyrir því að Hrynjandi syngi í miðbæ Reykjavíkur og gleðji gesti og gangandi með lifandi tónlist og hátíðlegu andrúmslofti. Í júní 2025 heldur kórinn í spennandi tónleikaferð til Helsinki og Tallinn, þar sem hann miðlar sönggleði sinni á erlendri grund.
Kórstjóri Hrynjandi er Berta Dröfn Ómarsdóttir.
Tónleikarnir eru liður í vortónleikaröð Félags íslenskra kórstjóra í Hörpuhorni. Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin.