Sinfóníuhljómsveit Íslands
Andris Poga
hljómsveitarstjóri
Jan Lisiecki
einleikari
Ludwig van Beethoven
Píanókonsert nr. 4
Dmitríj Shostakovitsj
Sinfónía nr. 8
Pólsk -kanadíski píanóleikarinn Jan Lisiecki hefur verið í fremstu röð píanóleikara heimsins um árabil og er íslenskum tónleikagestum að góðu kunnur, en á síðustu árum hefur hann leikið píanókonserta Schumanns (2018) og Chopins (2022) með Sinfóníuhljómsveit Íslands við mikinn fögnuð áheyrenda og gagnrýnenda. Á þessum tónleikum leikur hann fjórða píanókonsert Beethovens, stórbrotið verk sem geymir jafnt óviðjafnanlega virtúósísk píanóskrif og djarflegar formrænar nýjungar, að ógleymdri þeirri upphöfnu fegurð og innilegu tjáningu sem skýrir ekki síst vinsældir þess meðal tónlistarunnenda um allan heim.
Sinfónía nr. 8 eftir Shostakovitsj var frumflutt í Moskvu 1943, í miðri heimsstyrjöld. Hún er stór í sniðum og tilfinningalega áhrifamikil, en tónskáldið lýsti henni sem eins konar þjáningaróði, tilraun til þess að spegla hinn ógurlega sársauka sem stríðið hafði í för með sér. Shostakovitsj átti í stormasömu sambandi við yfirvöld í Moskvu þar sem hann var ekki alltaf reiðubúinn til þess að fylgja þeirri hugmyndafræði sem þau boðuðu. Áttunda sinfónían er á meðal þeirra sem lentu á bannlista yfirvalda, þar sem tónskáldið þótti hafa gerst sekt um formræna úrkynjun.
Hljómsveitarstjórinn Andris Poga stjórnar nú Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn. Auk þess að koma fram sem
gestastjórnandi með mörgum af fremstu hljómsveitum
heims er Poga aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar í Stavanger, en var áður aðalhljómsveitarstjóri lettnesku þjóðarhljómsveitarinnar.