Bamberg sinfóníuhljómsveitin ásamt Hélène Grimaud undir stjórn Jakub Hruša
Ein fremsta sinfóníuhljómsveit Þýskalands, Bamberg sinfónían, kemur fram í fyrsta sinn á Íslandi 20. apríl 2024. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum verður hinn tékkneski Jakub Hruša sem nýlega var ráðinn næsti tónlistarstjóri Konunglega óperuhússins í Covent Garden í London. Hruša hefur á síðustu árum náð miklum árangri í starfi sínu sem aðalhljómsveitarstjóri Bamberg sinfóníunnar auk þess sem hann er eftirsóttur gestastjórnandi margra bestu hljómsveita heims á borð við fílharmóníuhljómsveitir Vínar, Berlínar og New York og sinfóníuhljómsveitar Chicago.
Bamberg sinfónían undir stjórn Jakub Hruša hlaut International Classical Music Award (ICMA) árið 2022 fyrir upptöku á fjórðu sinfóníu Antons Bruckner og aftur árið 2023 fyrir upptökur af Sinfóníu nr. 1 eftir Hans Rott. Þá var Jakub Hruša var valinn stjórnandi ársins 2023 af Opus Klassik, klassísku tónlistarverðlaunum Þýskalands.
Einleikari á tónleikunum í píanókonserti Roberts Schumann verður hinn
margverðlaunaði franski píanóleikari
Hélène Grimaud. Eldmóður hennar í tónlistinni endurspeglast einnig í starfi hennar á
sviði umhverfisverndar og mannréttinda sem hún er jafnframt þekkt fyrir.
Efnisskráin er vafalítið sérstakt ánægjuefni fyrir unnendur tónlistar Richards Wagner því á tónleikunum flytur Bamberg prelúdíu úr fyrsta þætti Lohengrin og Tannhäuser-forleikinn. Einnig verða flutt verk eftir tvo samtímamenn Wagners, Sinfónía nr. 3 eftir Johannes Brahms og píanókonsert Roberts Schumann í flutningi Hélène Grimaud.
Tónleikar Bamberg sinfóníunnar á Íslandi eru þeir fyrstu í tónleikaferð sveitarinnar til Bandaríkjanna en úr Hörpu liggur leiðin meðal annars í Carnegie Hall í New York.
Missið ekki af viðburði á heimsmælikvarða í Hörpu.
Nánar um tónleikana hér