Skip to content

Tix.is

Harpa

Um viðburðinn

Uppbókað er í báða leiki en hægt að skrá barn á biðlista hér. Haft verður samband ef pláss losna.

Harpa er ævintýralegt hús þar sem tónlist berst úr öllum hornum. Á hvaða hljóðfæri er spilað og hvaðan kemur tónlistin?  

Tónlistarmaðurinn Már Gunnarsson leiðir börn og fjölskyldur í hlustunarratleik um húsið og í leit að tónlistinni. Farið verður í gegnum hina ýmsu króka og kima, tónleikasali og ganga Hörpu í skemmtilegri leit að tónlistarfólki sem felur sig hér og þar.

Hlustunarratleikurinn hefst við Hljóðhimna klukkan 11:00 og 13:00 og tekur um það bil 45 mínútur.

Leiðsögn og hljóðfæraleikur: Már Gunnarsson
Tónlistarfólk í felum: Yasney Rojano og Kristófer Rodriguez Svönuson.

Aðgangur er ókeypis en bóka þarf miða hér. Opnað verður fyrir miðabókanir 27. desember klukkan 10:00. 
Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður og fullorðinn þarf að fylgja hverju barni. Bókað er miða á hvert barn, hverjum barnamiða fylgja að hámarki tveir fullorðnir. 

Hvaðan kemur tónlistin? er ný viðbót í fjölskyldudagskrá Hörpu og er unnin í samstarfi við Blindrafélagið og styrkt af Barnamenningarsjóði.   

Aðgengi og aldursviðmið

Viðburðurinn er aðgengilegur öllum og sérstaklega útfærður fyrir sjónskerta og blinda.

Viðburðurinn fer fram á íslensku og ensku, hægt er að spyrja spurninga á spænsku.

Viðburðurinn hentar ekki börnum yngri en þriggja ára. 
Nánari upplýsingar um heimsóknir í Hörpu og aðgengismál má finna hér.   

Már Gunnarsson, tónlistar- og íþróttamaður lítur ekki á sjónleysi sitt sem fötlun. Hann vill útrýma hugtakinu „fatlaður“ og vill ekki dæma fólk fyrir að vera öðruvísi. Hann er mikil fyrirmynd, lætur ekkert stoppa sig og skarar framúr bæði á sviði íþrótta og menningar. Már er sérstaklega jákvæður einstaklingur, vandar vel til verka og hefur gott skopskyn. Hann er afreksíþróttamaður og margfaldur Íslandsmethafi í sundi í fötlunarflokki S11, flokki blindra. Hann var kjörinn Íþróttamaður fatlaðra árið 2019, Íþróttamaður Suðurnesja 2019 og Suðurnesjamaður ársins 2019. Hann er einnig handhafi Kærleikskúlunnar 2019. Már spilar á píanó, semur tónlist og syngur. Hann gaf út plötuna Söngur Fuglsins árið 2019, einnig vann hann í desember 2019 jólalagasamkeppni Rásar tvö ásamt systur sinni Ísold Wilberg með laginu, Jólaósk. Hann hefur einnig tekið þátt í Söngvakeppni Sjónarpsins, sönglagakeppnum erlendis og unnið við dagskrárgerð í sjónvarpi og útvarpi.  

Yasney Rojano fiðluleikari er fædd og uppalin í Havana, Kúbu. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla ISA og er með meistaragráðu í tónlistarflutningi. Hún starfaði sem fiðluleikari við Sinfóníuhljómsveit Kúbu og Þjóðaróperuna í nokkur ár ásamt því að starfa sem kennari við Amadeo Roldán tónlistarskólann á miðstigi. Í gegnum feril sinn hefur hún tekið þátt í ýmsum verkefnum og tónlistargreinum sem víkkað hennar svið sem tónlistarkona.

Kristofer Rodríguez Svönuson er trommu- og slagverksleikari sem útskrifaðist frá FÍH árið 2014. Á síðustu árum hefur Kristofer starfað með mörgu frábæru tónlistarfólki; Mugison, Cell7, Júníus Meyvant, Tómas R. Einarsson, Sunnu Gunnlaugsdóttur, SJS Big Band, Stórsveit Reykjavíkur. Árið 2019 gaf Kristofer út sýna fyrstu plötu Primo. Platan var gefin út af Lucky Records og var tilnefnd sem plata ársins í opnum flokki á íslensku tónlistarverðlaununum.

Við viljum upplýsa gesti um að ljósmyndari á vegum Hörpu gæti verið viðstaddur þennan viðburð. Ef foreldrar eða forráðamenn vilja ekki að myndir af börnum þeirra birtist í umfjöllun um viðburðinn á miðlum Hörpu þá biðjum við ykkur vinsamlegast um að láta starfsfólk eða ljósmyndara vita á staðnum eða hafa samband í gegnum tölvupóstfangið markadsdeild@harpa.is.