Listvinafélagið í Reykjavík, sem í ár fagnar 40 ára afmæli sínu, stendur fyrir heildarlestri Passíusálmanna í Hörpu, á föstudaginn langa, 15. apríl kl. 12-17. Listvinafélagið skipulagði Passíusálmalesturinn í Hallgrímskirkju í Reykjavík um 30 ára skeið, en Passíusálmarnir eru höfuðverk séra Hallgríms Péturssonar (1614–1674) og meðal merkustu bókmenntaverka Íslendinga.
LESARI: Halldór Hauksson
TÓNLISTARFLYTJENDUR: Félagar úr Mótettukórnum og kammerkórnum Schola cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar.
Passíusálmarnir eru höfuðverk séra Hallgríms Péturssonar (1614–1674) og meðal merkustu bókmenntaverka Íslendinga. Þessi magnaða túlkun skáldprestsins á „historíu pínunnar og dauðans Drottins vors Jesú Kristí“ í fimmtíu sálmum var fyrst prentuð árið 1666 og öðlaðist fljótt algjöra sérstöðu í trúar- og menningarlífi þjóðarinnar. Kynslóðir Íslendinga kunnu sálmana meira og minna utan að og þeir voru lesnir og sungnir í kirkjum og á heimilum um allt land á föstunni. Engin bók hefur oftar verið prentuð á Íslandi og fá listaverk hafa markað jafn djúp spor í þjóðarsálina.
Halldór Hauksson hefur flutt Passíusálmana í heild opinberlega á hverju ári síðan 2014. Hann segir: „Það gefur mér afar mikið að lesa þessa sálma á föstunni og ég veit að það á við um mjög marga. Stundum spyr ég mig hvernig á því standi að trúarlegur kveðskapur frá 17. öld skuli enn eiga svona mikinn hljómgrunn meðal Íslendinga. Ég held að svarið sé að þrátt fyrir að heimsmynd og lífsvenjur breytist í aldanna rás þá er kjarninn í mannlegri tilveru alltaf sá sami. Fáir hafa túlkað og tjáð sorg og kvíða á jafn djúpsæjan og persónulegan hátt á íslenska tungu og Hallgrímur, en í Passíusálmunum er sömuleiðis að finna ótal óviðjanleg tilbrigði við stefin ást og þakklæti og hina eilífu von um fagra framtíð.“
Hugmyndin með lestrinum í Hörpu er sú að bjóða nú upp á nýjung í lifandi flutningi Passíusálmanna sem þjóðin þekkir svo vel og taka þá inn í nýtt umhverfi. Lögð er áhersla á óþvingað flæði í Hörpuhorni þannig að gestir geti komið og farið að vild og tónlistaratriði verða nokkrum sinnum milli lestra yfir daginn.
Lögð er áhersla á óþvingað flæði í Hörpuhorni þannig að gestir geti komið og farið að vild.
Aðgangur að Passíusálmalestrinum er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir!
Veitingastaðurinn Hnoss á jarðhæð Hörpu verður opinn, þ.s. gestir geta fengið sér hressingu meðan á lestrinum stendur.
Sjá nánar: listvinafelag.is