Efnisskrá:
Thierry Escaich: Mecanic Song fyrir píanó og
blásarakvinett
Nino Rota: Nonetto fyrir blásarakvintett og strengi
Það má segja að Thierry Escaich (1965), eitt mikilvægasta samtímatónskáld Frakklands, sé sannkallaður renaissance-maður. Auk þess að vera afkastamikið tónskáld er Eiscaich eftirsóttur kennari við Parísarkonservartoríið, spunameistari og einn þekktasti konsertorganisti í heiminum í dag en Escaich starfar við St-Étienne-du-Mont kirkjuna í París. Íslendingum gafst kostur á að hlýða á rómaðan orgelleik Escaich þegar hann kom fram á tónleikum á Alþjóðlegu orgelsumri í Hallgrímskirkju 2018. Hann lærði við Konservatoríið í París og útskrifaðist frá skólanum árið 1992, bæði úr tónsmíðum og orgelleik með fyrstu verðlaun í átta greinum.
Eschaich semur í mörgum stíltegundum og formum og telur verkalisti hans yfir 100 verk sem hafa hrifið áheyrendur um allan heim með ljóðrænum línum, ríkri hljómsetningu og ritmískri orku.
Mecanic song, verk fyrir blásarakvintett og píanó, var samið árið 2006.
Hinn ítalski Nino Rota (1911-1979) var aðallega þekktur sem kvikmyndatónskáld, sérstaklega fyrir tónlist sem hann samdi við myndir leikstjóranna Fellini, Visconti, Zeffirelli og Coppola en hann hlaut einmitt Óskarsverðlaunin fyrir tónlist sína fyrir aðra kvikmynd Coppola um Guðföðurinn árið 1974. Á óvenju löngum ferli skildi Rota eftir sig tónlist fyrir yfir 150 kvikmyndir og afar stórt safn verka sem inniheldur m.a 10 óperur, 23 balletta og sviðslistaverk, þrjár sinfóníur og mörg kór- og kammerverk.
Nonetto er skrifað, endurskoðað og breytt á tímabilinu 1959 til 1977 og sýnir þar fjölbreyttar hliðar hans sem tónskálds. Verkið er í fimm þáttum og má segja að aldrei sé dauð stund þar sem glaðvær þemu og oft óvæntir hljómar koma við sögu. Verkið vísar að einhverju leyti til fortíðar með formi sínu en Rota reynir sig við ýmis stílbrigði og niðurstaðan er verk sem gleður bæði áheyrendur og flytjendur.
Kammersveit Reykjavíkur var stofnuð árið 1974 af Rut Ingólfsdóttur ásamt 12 hljóðfæraleikurum, sem flestir voru nýkomnir heim frá námi erlendis og störfuðu í Sinfóníuhljómsveit Íslands og við Tónlistarskólann í Reykjavík. Markmiðið með stofnun hennar var að gefa áheyrendum kost á reglulegum tónleikum með kammertónlist, allt frá barokktímanum til nútímans, og um leið að gefa hljóðfæraleikurunum tækifæri til að glíma við áhugaverð verkefni. Óhætt er að fullyrða Kammersveitin hafi tekist ætlunarverk sitt því hún hefur átt fastan sess í tónlistarlífi höfuðborgarinnar síðan.
Kammersveit Reykjavíkur kemur fram í misstórum hópum, allt frá 3 til 35 manns, en stærð hópsins ræðst af þörfum tónverkanna hverju sinni. Meðlimir Kammersveitarinnar eru virkir þátttakendur í tónlistarlífi Íslendinga enda meðlimir í Sinfóníuhljómsveit Íslands og ýmsum öðrum hljómsveitum auk þess að stunda tónlistarkennslu. Enn hafa þeir að leiðarljósi það takmark að auðga íslenskt tónlistarlíf með því að leyfa áheyrendum að hlýða á fyrsta flokks flutning tónbókmennta frá ýmsum tímabilum tónlistarsögunnar. Markmið stofnenda Kammersveitarinnar eru því jafn mikið í gildi í dag og þau voru fyrir fjórum áratugum.